135. löggjafarþing — 98. fundur,  6. maí 2008.

húsnæðismarkaðurinn og Íbúðalánasjóður.

[13:53]
Hlusta

félags- og tryggingamálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Herra forseti. Hv. framsóknarmenn hafa verið iðnir að fara hér upp í ræðustól og vara við þenslu og aukinni verðbólgu. Það er einmitt það sem ég horfi til þegar ég velti því fyrir mér hvort örva eigi fasteignamarkaðinn, hvaða áhrif það mundi hafa á þenslu og verðbólgu. Því miður gæti farið svo ef við færum á þessu stigi máls að örva eitthvað fasteignamarkaðinn að það hefði neikvæð áhrif á markaðinn sem er ekki eins helfrosinn og margir vilja vera láta vegna þess að síðast í morgun hafði ég samband við Íbúðalánasjóð og bað um samanburð á útlánum sjóðsins á fyrstu fjórum mánuðum þessa árs og fyrstu fjórum mánuðum síðasta árs og útlánin eru ósköp svipuð, 3, 4 og 5 milljarðar á þessum mánuðum. Markaðurinn er því ekki frosnari en það.

Ég hef auðvitað áhyggjur af stöðu íbúðarkaupenda eins og margir hafa vegna þess að ef sú spá Seðlabankans gengi eftir um 30% lækkun á íbúðaverði mundi fara illa fyrir mörgum. Ég held að það hafi verið mjög óskynsamlegt af Seðlabankanum að tala fasteignamarkaðinn niður með þeim hætti sem hann gerði. Ég held að það sé mjög alvarlegt að gera slíkt. (Gripið fram í.)

Spurningin um hvort ég sé sammála sjálfstæðismönnum eins og hv. þingmaður orðaði það, að það sé Íbúðalánasjóði að kenna að hér hafi allt farið úr böndunum. Ég hef ávallt sagt og sagt það gegnum árin að það hafi fyrst og fremst verið innkoma bankanna, sú innspýting sem þeir komu með inn á markaðinn sem hafi valdið þessari þenslu. En margir líta líka svo á að framsóknarmenn hafi farið offari í því að keyra strax í kjölfarið með 90% lánum þegar bankarnir komu inn á markaðinn en halda ekki (Gripið fram í.) áætlun sinni eins og Framsóknarflokkurinn lagði upp með, að fara í 90% á einhverjum tilteknum tíma.

Ég get fullvissað hv. þingmann um að eins fljótt og verða má, og tímasetning skiptir þar máli, munum við fara í aðgerðir í húsnæðismálum. (Forseti hringir.) Ég ítreka að tímasetningin skiptir þar öllu máli.