135. löggjafarþing — 98. fundur,  6. maí 2008.

húsnæðissparnaðarreikningar.

[13:59]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Herra forseti. Það er rétt hjá hv. þingmanni að það er nauðsynlegt að hvetja til sparnaðar og hvetja til þess að þeir sem fara út í íbúðarkaup séu búnir að leggja málin vel niður fyrir sér og undirbúa sig undir þau kaup og sú ákvörðun sem tekin var, að taka upp skattfrádráttarkerfi á ný, er einmitt gerð í þeim tilgangi að ná því markmiði.

Eins og hv. þingmenn vita var hér við lýði um rúmlega tíu ára skeið frá 1985 og fram undir 2000 kerfi sem var í þessa veru og við erum að skoða það og fara yfir það núna hvernig það virkaði og hvaða lærdóm er hægt að draga af þeirri reynslu sem þar var um að ræða. Frá því að fallið var frá þessu kerfi hafa svipuð kerfi verið við lýði og verið að þróast í nágrannalöndunum og við erum einnig að skoða hver reynslan er þar á þessu sviði og hvernig best er að standa að þessum málum. Það koma auðvitað upp mörg álitamál þegar farið er ofan í þetta og er nauðsynlegt að rétt og vel sé að þessu staðið í upphafi.

Ég geri mér vonir um að geta lagt fram til kynningar á þessu þingi frumvarp um húsnæðissparnaðarreikninga en það gengur auðvitað á tímann, það er ekki mikill tími eftir. En ég mun kappkosta að geta lagt slíkt frumvarp fram til kynningar áður en þingið fer í sumarleyfi.