135. löggjafarþing — 98. fundur,  6. maí 2008.

olíuhreinsistöð á Vestfjörðum.

[14:02]
Hlusta

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Herra forseti. Ekki fyrir svo mjög löngu svaraði hæstv. iðnaðarráðherra mér hér því til varðandi undirbúning að uppbyggingu olíuhreinsistöðvar á Vestfjörðum hver aðkoma ríkisstjórnarinnar hefði verið að því máli. Í svarinu kom enn fremur fram að fyrirhuguð olíuhreinsistöð mundi losa yfir 500 þús. tonn af koldíoxíði sem ekki rúmaðist innan loftslagsheimilda Íslendinga. Ýmislegt fleira kom fram í svari hæstv. ráðherra sem ekki beint gaf tilefni til þess að mati margra að haldið væri áfram með málið. Það hefur hins vegar engu að síður verið gert og enn gengur á með gylliboðum þar vestra. Það nýjasta er að í útvarpinu var í síðustu viku rætt við Raphael Baron, rússneskan forsvarsmann Geostream, sem segir að framkvæmdir gætu hafist strax á næsta ári við að reisa olíuhreinsistöð á Vestfjörðum.

Það er ljóst, herra forseti, að ekki verður hægt að ganga lengra áfram svona með þessum gylliboðum um litla sæta olíuhreinsistöð. Menn verða að fara að snúa sér að því að gera umhverfismat sem er bæði flókið og vandasamt verkefni en einnig mjög dýrt.

Ég vil því spyrja í ljósi aðkomu ríkisins að þessu máli hingað til hvort hæstv. iðnaðarráðherra telji það koma til álita að ríkissjóður kosti gerð umhverfismats fyrir olíuhreinsistöð á Vestfjörðum að hluta til eða að öllu leyti. Ég spyr enn fremur hæstv. ráðherra hvort erindi þess efnis hafi borist inn á borð ráðherrans eða ráðuneytisins.