135. löggjafarþing — 98. fundur,  6. maí 2008.

olíuhreinsistöð á Vestfjörðum.

[14:04]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Herra forseti. Spurningu hv. þingmanns er fljótsvarað, mér er ekki kunnugt um að neitt slíkt erindi hafi borist til iðnaðarráðuneytisins þar sem farið er fram á að umhverfismat eða að eitthvað annað sem tengist meintri olíuhreinsistöð verði kostað af iðnaðarráðuneytinu eða ríkissjóði. Eins og mig minnir að hafi komið fram í svari mínu til hv. þingmanns á sínum tíma hefur aðkoma ráðuneytisins og ríkisstjórnarinnar verið sú ein að á sínum tíma var lofað að greiða ferðakostnað fyrir menn sem fóru til þess að kynna sér olíuhreinsistöðina. Ég stóð við það loforð þegar ég kom í ráðuneytið og mig minnir að sú upphæð hafi verið 1,8 millj. kr.

Sömuleiðis minnist hv. þingmaður þess örugglega að þegar fjárlög voru afgreidd af Alþingi (Gripið fram í: Fjáraukalög.) eða fjáraukalög, nú man ég ekki lengur hvort heldur var, var hið háa Alþingi svo vinsamlegt að búa til sérstakan lið undir iðnaðarráðuneytinu þar sem á voru settar 5 millj. kr. til að kanna staðarval. Það er sú eina aðkoma sem að mér hefur snúið eða mínu ráðuneyti og ríkisstjórninni svo að ég viti til.

Hv. þingmaður spyr síðan hvort ég telji koma til greina að ríkissjóður mundi kosta slíkt mat á umhverfisáhrifum. Nei, ég tel það ekki koma til greina. Ég tel að það hljóti að fara eftir þeim sömu reglum og yfirleitt gilda um þessi mál og eins og hv. þingmaður veit er þeim með öðrum hætti farið. Hv. þingmaður orðaði það svo, minnir mig, í fyrirspurn sinni hérna áðan hvort ekki væri rétt að fara að slá botn í þetta sem hún kallaði „litla olíuhreinsistöð“ fyrir vestan. Þetta eru 8 millj. tonna á hverju ári sem þarna er verið að ræða um, það er verið að tala um 100 skip sem geta borið 80–100 þús. tonn hvert til siglinga fyrir Vestfjörðum. Ég kalla það ekki litla (Forseti hringir.) olíuhreinsistöð.