135. löggjafarþing — 98. fundur,  6. maí 2008.

olíuhreinsistöð á Vestfjörðum.

[14:06]
Hlusta

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Herra forseti. Það er óþarft að snúa út úr orðum mínum. Ég sagði að það yrði að linna þessum gylliboðum um „litla, sæta olíuhreinsistöð í sátt við umhverfið“ því að sú er auðvitað ekki raunin. Þetta voru öfugmæli eins og mátti vitaskuld skilja.

Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þau svör að ekki komi til greina að hans mati að ríkið kosti gerð umhverfismats fyrir olíuhreinsistöð á Vestfjörðum. Ég tel mjög mikilvægt að það liggi fyrir. Við skulum minnast þess að það var áætlað að umhverfismatið fyrir Kárahnjúkavirkjun kostaði um 300 millj. kr. og ég hygg að það hafi losað 500 millj. þegar upp var staðið. Hér er um gríðarlega dýrt verkefni að ræða, það er líka eðli máls samkvæmt mjög flókið og ég fagna því að ríkið ætlar ekki að borga þetta fyrir framkvæmdaaðilann — sem ekki einu sinni er vitað hver er.