135. löggjafarþing — 98. fundur,  6. maí 2008.

mannekla á velferðarstofnunum.

[14:15]
Hlusta

Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Það er nokkuð um liðið frá því að ég óskaði eftir utandagskrárumræðu um manneklu á velferðarstofnunum og á þeim tíma hafa töluverðar sviptingar orðið í efnahagslífinu og dregið úr spennu á vinnumarkaði, sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu. Sveiflur í atvinnulífi hafa áhrif á framboð af fólki til umönnunarstarfa og því er útlitið ekki eins dökkt við ráðningar í sumarafleysingastörf nú og þegar beiðnin var lögð fram eftir mjög erfiðan vetur. Þetta breytir þó engu um undirliggjandi vanda velferðarstofnana sem nær allar eiga erfitt með að veita fullnægjandi þjónustu vegna þröngs fjárhagsramma, rekstrarstöðu eða úlfakreppu sem virðist vera notuð sem stjórntæki allt fram að afgreiðslu fjáraukalaga eins og gert hefur verið undanfarin ár.

Þessi aðferð getur ekki talist til góðra stjórnunarhátta, einkum og sér í lagi þegar stofnanir eru við afgreiðslu fjárlaga skildar eftir með skuldastöðu, aukið umfang, illa mannaðar og gert að halda uppi óbreyttri þjónustu. Fjáraukalög eiga að vera til að bregðast við óvæntum útgjöldum en ekki til að bæta upp óraunhæf fjárlög eins og gert hefur verið undanfarin ár. Á þetta höfum við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs bent, lagt fram raunsannar breytingartillögur án þess að ná eyrum ríkisstjórnarflokkanna. Er nema von að maður spyrji: Hvað býr að baki slíkum vinnubrögðum? Er verið að þrengja svo að opinberum rekstri að hann klofni í smærri rekstrareiningar, afmörkuðum einingum sé úthýst og velt yfir í einkarekstur? Er þetta aðferðin til að fá starfsfólk velferðarþjónustunnar til að trúa því að einkarekstur sé eina leiðin til að bæta launakjör?

Undir þessum stjórnunarháttum fer starfsemi velferðarstofnana að snúast um rekstur í stað þjónustu. Á opinberum stofnunum er allri ábyrgð komið á herðar forstöðumanna. Þeir eiga að bera ábyrgð á því að halda rekstrinum innan fjárlagarammans. Þeirra er ábyrgðin að reka stofnunina án þess að draga úr þjónustu þótt fjármagn skorti. Hvorki fjármálaráðherra, heilbrigðisráðherra né félagsmálaráðherra bera ábyrgð á þjónustu. Í besta falli vísa þeir hver á annan en geta allir sameinast um að senda ábyrgðina heim í hérað til stofnananna sjálfra. Mönnunarvandi velferðarþjónustunnar er þekktur. Ástand á stofnunum og rót vandans er einnig þekkt. Því verður að ráðast hið fyrsta í að viðurkenna þennan fyrirliggjandi vanda og staðreyndir og bæta rekstrargrunn velferðarstofnananna, hvort sem þær fá daggjald eða eru á fjárlögum svo að hægt sé að manna stofnanirnar eins og eðlilegt er og verður að vera til að veita þá þjónustu sem er sambærileg við það sem tíðkast annars staðar á Norðurlöndum, hvað þá ef á að ná þeim metnaðarfullu áformum ríkisstjórnarinnar að veita þjónustu á heimsmælikvarða.

Um 70% rekstrarkostnaðar velferðarstofnana eru launakostnaður. Þar sem umönnunarstörf eru nær eingöngu kvennastörf, störf sem dregist hafa aftur úr á hinum almenna vinnumarkaði í launum, auk þess sem stór hluti er láglaunastörf er ljóst að það eru ekki ofurlaun sem valda auknum útgjöldum í velferðarþjónustunni heldur aukið umfang.

Hæstv. forseti. Það er komin mikil þreyta í starfsfólk þessara stofnana eftir langvarandi álag og ljóst að ef ekki verður farið í sértækar aðgerðir til að rétta rekstrargrunn velferðarstofnananna munu þeir sem fram til þessa hafa þraukað, verið það akkeri sem þarf til að halda uppi starfseminni, ganga til annarra starfa.

Vaktavinna er hlutskipti flestra umönnunarstétta. Vaktavinna ein og sér veldur auknu álagi, eykur hættu á ákveðnum sjúkdómum og styttingu ævilengdar um nokkur ár. Þetta er staðreynd sem verður að viðurkenna og bæta sérstaklega í kjörum þessa fólks. Uppsagnir hjúkrunarfræðinga og geislafræðinga á LSH snerust um vaktafyrirkomulag en undirliggjandi er kraumandi óánægja með laun og kjör og má líta á þessar sérstöku aðgerðir sem nú hefur verið frestað sem toppinn á ísjakanum. Kvennastéttirnar eru sá hópur sem verður að koma til móts við í næstu kjarasamningum. Að öðrum kosti blasir við neyðarástand í allri heilbrigðis- og velferðarþjónustunni í landinu, ekki tímabundið heldur til langs tíma.

Í komandi kjarasamningum er tækifæri fyrir ríkisstjórnina til að uppfylla þau ákvæði stjórnarsáttmálans að koma á jafnrétti í reynd og minnka óútskýrðan launamun. Því vil ég, hæstv. forseti, fá að beina nokkrum spurningum til hæstv. fjármálaráðherra:

Telur hæstv. ráðherra að hægt sé að ná markmiði ríkisstjórnarinnar um að á Íslandi sé veitt heilbrigðisþjónusta á heimsmælikvarða með viðvarandi manneklu á velferðarstofnunum? Telur ráðherra að mannekla sé farin að koma niður á gæðum velferðarþjónustunnar og er verið að vinna að endurmati á störfum umönnunarstétta með það að markmiði að bæta kjör og efla virðingu fyrir störfum þessara stétta? Munu þess sjást merki í komandi kjarasamningum að tekið verði á launamun kynja og vaktavinnufólks? Telur hæstv. fjármálaráðherra viðvarandi (Forseti hringir.) manneklu á velferðarstofnunum ásættanlega? Að lokum, hæstv. forseti: Ef ekki, hvaða úrræði hafa velferðarstofnanirnar sem bundnar eru af daggjaldagreiðslum, fjárlögum eða öðrum föstum greiðslum til að ráða til sín starfsfólk í samkeppni við hinn almenna launamarkað?