135. löggjafarþing — 98. fundur,  6. maí 2008.

mannekla á velferðarstofnunum.

[14:26]
Hlusta

Gunnar Svavarsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að taka þessi mál upp. Vissulega hefði verið gaman að ræða þau fyrr því að eins og hér hefur komið fram má kannski segja að á umliðnum mánuðum hafi sú mannekla sem velferðarstofnanir hafa almennt staðið frammi fyrir breyst og menn ráðið nú í störfin. Við getum hins vegar ekki sleppt því að horfa til þess sem við höfum upplifað á umliðnum mánuðum og árum varðandi launamálin á velferðarstofnununum. Það er atriði sem við öll höfum talað fyrir og vissulega er það þannig á velferðarstofnunum, hvort sem er hjá ríki eða sveitarfélögum eða einkareknum „non-profit“-stofnunum sem hafa verið að vinna í velferðarmálunum, að þar eru konur í miklum meiri hluta starfsmanna og það er einfaldlega þannig að þær stéttir hafa orðið eftir í launaskriði. Ég ætla ekki að víkja mér undan því og get sagt það hér, virðulegi forseti, að það er sérstakt áhugamál mitt að stuðla að því að þær stéttir sem hafa orðið eftir, hinar hefðbundnu kvennastéttir, hvort sem er á velferðarstofnunum eða annars staðar, fái leiðréttingu á kjörum sínum. Ég heyri ekki betur en að hér sé almennur hljómgrunnur fyrir því.

Auðvitað höfum við horft upp á alls konar vandamál við að manna störfin en eins og hér hefur komið fram er gjörbreyting á síðustu mánuðum. Ég þekki það best á rekstri leikskóla í sveitarfélögum þar sem sveitarfélögin stóðu frammi fyrir því að geta ekki mannað störf sem er hægt að manna í dag. Allt þetta tengist því umhverfi sem við stöndum frammi fyrir í dag og þess vegna, virðulegi forseti, er vissulega áhyggjuefni líka að horfa upp á það að Hagstofan birtir nýjar tölur um viðskiptajöfnuðinn í apríl og sýnir að hann er neikvæður um rúma 7 milljarða. Það eru tölur sem ég átti ekki von á og það (Forseti hringir.) segir manni í raun og veru að maður verður að fara að horfa til fjárlagagerðarinnar með hliðsjón af því að viðskiptajöfnuðurinn (Forseti hringir.) heldur áfram að aukast og er um 10 millj. kr. meiri, króna á móti krónu, en fyrir ári.