135. löggjafarþing — 98. fundur,  6. maí 2008.

mannekla á velferðarstofnunum.

[14:28]
Hlusta

Grétar Mar Jónsson (Fl):

Herra forseti. Fólk sem starfar í velferðarþjónustunni er með lægstu laun sem þekkjast í landinu. Það er ekki hægt að bjóða fólki sem starfar á sjúkrahúsum, sambýlum, elliheimilum, við heimaþjónustu og annað að vera með lægstu launin. Þau eru með lítið hærri laun en öryrkjar og aldraðir sem eru langt fyrir neðan hungurmörk og það er auðvitað ekki hægt að sætta sig við þetta til langs tíma. Þessu þarf að breyta.

Það er ekki auðvelt að breyta því. Eitt væri samt hægt að byrja á að gera og það er að breyta tekjuskiptingu á milli sveitarfélaga og ríkis. Það er leið til að tryggja þeim verkefnum sem sveitarfélögin þurfa að sjá um, eins og heimahjúkrun, elliheimili og annað í þeim dúr, meiri peninga. Við vitum það og þekkjum að sveitarfélög hringinn í kringum landið hafa enga möguleika til að yfirtaka þessi verkefni og sinna þeim eins og þarf að gera. Bróðurparturinn af kostnaði við reksturinn er launagjöld. Þess vegna er mjög nauðsynlegt að hækka þessa liði. Auðvitað ættum við að skoða með tilliti til aukafjárlaga að bæta þetta upp því að verðbólgan sem er nú þegar orðin mun skekkja dæmið hjá öllum rekstraraðilum, hvort sem er á vegum ríkisins eða sveitarfélaga. Þess vegna þurfum við að gera breytingar á þessu, það þarf meiri peninga í málaflokkana en maður veit svo sem að stjórnarflokkarnir hafa ekki komið sér saman um fjármagn í velferðarkerfið.