135. löggjafarþing — 98. fundur,  6. maí 2008.

mannekla á velferðarstofnunum.

[14:33]
Hlusta

Ásta Möller (S):

Virðulegi forseti. Þær umbreytingar hafa orðið í mönnunarmálum á stofnunum að þau hafa breyst til hins betra á síðustu mánuðum en hins vegar er alveg ljóst að vinnuálag hefur verið mikið á stofnunum velferðarkerfisins og m.a. svo að skortur á starfsfólki hefur leitt til þess að dregið hefur úr starfseminni. Nú eru merki um viðsnúning í þessum efnum og samkvæmt upplýsingum frá Landspítalanum hefur gengið t.d. ágætlega að ráða í störf aðstoðarmanna í umönnun og hjúkrun í sumar, ekki síst á geðdeildunum, en enn vantar þó á að manna störf hjúkrunarfræðinga og sjúkraliða.

Stjórnendur hafa þó orðið varir við auknar fyrirspurnir frá hjúkrunarfræðingum eftir störfum á sjúkrahúsi í kjölfar þess að þrengst hefur um á vinnumarkaði fyrir þessa stétt fyrir utan hið almenna og opinbera heilbrigðiskerfi. Hið sama á við um öldrunarstofnanirnar, þar hefur gengið betur að manna störf en áður og einnig í sambýlum fyrir geðfatlaða eins og komið hefur fram í fréttablöðum. Á Hrafnistu er nú t.d. verið að opna hjúkrunarrými sem hafa verið lokuð undanfarið vegna skorts á starfsfólki.

Mönnun á velferðarstofnunum fylgir oft hagsveiflunni. Þegar hægist um leitar starfsfólkið í öruggara starfsumhverfi sem opinber fyrirtæki bjóða upp á öðrum fremur. Ég tel reyndar að jákvæðar auglýsingar um störf á hjúkunarheimilum og mikil áhersla á bættan aðbúnað á þessum stofnunum sé að skila sér í aukinni aðsókn fólks í störf þar. Það er mjög mikilvægt. Skort á faglegu starfsfólki þarf þó að leysa til lengri tíma og það hefur komið fram að stórir árgangar hjúkrunarfræðinga eru að fara á lífeyri. Þess vegna fagna ég því að nýverið var fjöldatakmörkunum í hjúkrunarfræðinám aflétt sem gefur möguleika á að takast enn betur á við þennan vanda. Það er líka mikilvægt að gefa starfsfólki í umönnun aukin tækifæri til að afla sér menntunar í störfum og það hefur m.a. verið gert með svokallaðri sjúkraliðabrú upp á síðkastið.

Það verður hins vegar ekki fram hjá því litið að það er horft til næstu kjarasamninga um bætt kjör umönnunarstétta enda var gert ráð fyrir því í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar.