135. löggjafarþing — 98. fundur,  6. maí 2008.

mannekla á velferðarstofnunum.

[14:43]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Herra forseti. Kjarasamningar verða ekki til lykta leiddir í þingsölum.

Það er hins vegar athyglisvert að hv. þm. Grétar Mar Jónsson, sem hefur gert að umræðuefni hér að undanförnu hvað þenslan í þjóðfélaginu sé mikil, kallar á meiri peninga. Hv. þm. Bjarni Harðarson talar um aðgerðaleysi ríkisstjórnarinnar en hv. flokksbróðir hans, Birkir Jón Jónsson, talar um að samneyslan hafi aldrei verið meiri, eða frá 1993, sem er rétt hjá honum. Staðreyndin er sú að við Íslendingar erum í þriðja eða fjórða sæti hvað opinber fjárframlög varðar til heilbrigðiskerfisins. Það getur því vel verið að það sé rétt hjá honum að hér sé um vandamál að ræða sem við getum kallað að sé forgangsröðun. Þær stofnanir sem um er að ræða í þessu tilfelli eru heilbrigðisstofnanir, það eru stofnanir félagsmálaráðuneytisins og þegar hann fer að tala um kynbundinn launamun er það verkefni jafnréttisráðuneytisins, félagsmálaráðuneytisins. Öll þessi þrjú ráðuneyti, öll þessi þrjú verkefni hafa verið í höndum Framsóknarflokksins síðustu átta árin eða þangað til fyrir tæpu ári — (BJJ: Menntamálin?) Félags-, heilbrigðis- og jafnréttismálin. Aðgerðaleysið sem hv. þm. Bjarni Harðarson talaði um hlýtur að skrifast á reikning Framsóknarflokksins sem fór með þessa málaflokka yfir þetta tímabil. (Gripið fram í.)

Það eru fleiri atriði í þessu sem skipta máli en launin. Það er, eins og hv. þm. Þuríður Backman talaði um, starfsumhverfi og faglega umhverfið sem ég held að skipti verulega miklu máli í þessu. Það skiptir máli þegar fólk velur sér starfsvettvang hvernig það sér að starf þess muni þróast. Það hugsar ekki bara um launin, það hugsar líka um þann faglega metnað sem það getur haft og fengið útrás fyrir.

Herra forseti. Þetta er flóknara en launin eingöngu en ég vil gjarnan svara hv. þm. Kjartani Eggertssyni þar sem hann talaði um að hækka persónuafsláttinn: (Forseti hringir.) Það er verið að gera það. Frumvörp um það liggja fyrir á hv. Alþingi.