135. löggjafarþing — 99. fundur,  6. maí 2008.

áhafnir íslenskra farþegaskipa og flutningaskipa.

401. mál
[15:02]
Hlusta

Frsm. samgn. (Steinunn Valdís Óskarsdóttir) (Sf):

Frú forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti samgöngunefndar um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 76/2001, um áhafnir íslenskra farþegaskipa og flutningaskipa.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ragnhildi Hjaltadóttur og Ólaf Pál Vignisson frá samgönguráðuneytinu. Umsagnir um málið bárust frá Hafnasambandi Íslands, Olíudreifingu ehf., Persónuvernd, Vegagerðinni, Félagi vélstjóra og málmtæknimanna, Landhelgisgæslu Íslands, Byggðastofnun, Slysavarnafélaginu Landsbjörg, Landssambandi björgunarsveita, Umhverfisstofnun, Siglingastofnun Íslands, Eyþingi – Sambandi sveitarfélaga í Eyjafirði og Þingeyjarsýslum og ríkislögreglustjóraembættinu.

Með frumvarpinu er lagt til að innleitt verði ákvæði um alþjóðlegt öryggisstjórnunarkerfi, ISM-kóðann, í íslenskan rétt. Með innleiðingunni er leitast við að tryggja öryggi á sjó, koma í veg fyrir slys eða manntjón og forðast mengun umhverfisins, einkum sjávar, og skemmdir á eignum.

Einnig er lagt til að innleidd verði tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins um gagnkvæma viðurkenningu á skírteinum sjómanna sem aðildarríkin gefa út. Sú tilskipun mælir fyrir um hvernig fara skuli með skírteini gefin út innan EES, einnig breytir hún og bætir við ákvæðum tilskipunar um lágmarksþjálfun sjómanna sem mælir fyrir um útgáfu skírteina í samræmi við kröfur STCW-samþykktarinnar.

Á fundum nefndarinnar kom fram að markmiðið með innleiðingu reglnanna er m.a. að stuðla að auknu öryggi þeirra sem starfa á sjó með því m.a. að skylda útgerðir skipa til að koma sér upp skilgreindu og skilvirku öryggisstjórnunarkerfi. Skulu viðkomandi útgerðir sjá til þess að æfingar verði haldnar í samræmi við kerfið. Ræddi nefndin sérstaklega í þessu sambandi vandamál sem geta skapast vegna ónógrar tungumálakunnáttu ef upp koma neyðartilvik og áhafnarmeðlimir skilja ekki skipanir skipstjóra. Samkvæmt gildandi lögum er það ætíð á ábyrgð skipstjóra að skipanir komist til skila. Telur nefndin mikilvægt að taka fram að samkvæmt ISM-kóðanum eiga útgerðir að vera með öryggisfulltrúa á sínum snærum og að útgerðirnar bera ríka ábyrgð að þessu leyti.

Fyrir nefndinni komu fram upplýsingar um að sýslumenn og tollstjóri gefa ekki lengur út sérstök íslensk atvinnuskírteini heldur sér Siglingastofnun alfarið um útgáfu þeirra og eru skírteinin alþjóðleg. Leggur nefndin því til að felldir verði brott 1. og 2. málsl. 1. mgr. 4. gr. laganna sem varða útgáfu sýslumanna og tollstjóra á skírteinum.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi breytingu:

Á eftir 2. gr. komi ný grein, svohljóðandi: 1. og 2. málsl. 1. mgr. 4. gr. laganna falla brott.

Undir nefndarálitið rita auk formanns, sem hér stendur, Ólöf Nordal, Herdís Þórðardóttir, Karl V. Matthíasson, Árni Þór Sigurðsson, Guðni Ágústsson, Ármann Kr. Ólafsson og Guðjón Arnar Kristjánsson en Árni Johnsen var fjarverandi við afgreiðslu málsins.