135. löggjafarþing — 99. fundur,  6. maí 2008.

fæðingar- og foreldraorlof.

387. mál
[15:25]
Hlusta

Frsm. fél.- og trn. (Ármann Kr. Ólafsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta var talsvert rætt í nefndinni, það að gefa orlof ofan á orlof og það má svo sem vel vera að það hljómi mjög skynsamlega, ekki síst af því að það er í sjálfu sér það sem gert er almennt séð, þ.e. þegar menn eru í sumarfríi reiknast orlof þar ofan á. Hins vegar er þetta náttúrlega hártogun. Mér finnst það mjög einkennilegt að gefa frí ofan á frí, orlof ofan á orlof, því í rauninni er verið að tala um að lengja orlofið um þrjár vikur. Það er bara það sem er verið að tala um, að lengja þetta um u.þ.b. þrjár vikur. Það fer náttúrlega eftir því hvaða viðmið við tökum en það er í það minnsta verið að tala um að lengja orlofið um einhverjar vikur. Það er það sem þetta snýst um. Menn geta alveg haft þá skoðun að þetta orlof eigi að vera lengra.

Það sem menn voru sammála um í nefndinni í ljósi þess að breytingar á fæðingarorlofi ættu eftir að koma inn í þingið samkvæmt stjórnarsáttmála, var að rétt væri að bíða með umfjöllun og umræðu um að setja orlof ofan á orlof, varðandi það að lengja þetta enn frekar. Það snýst um að lengja þetta enn frekar. Það er það sem hv. þingmaður er að tala um. Sú lenging mun verða, það verður lengra. Hins vegar varðandi mismunun á milli almenna markaðarins og opinbera vinnumarkaðarins þá er hann því miður ansi víða. En ég get algerlega tekið undir það að í þessu tilviki eiga menn að sjálfsögðu í sem flestum tilvikum að sitja við sama borð þegar kemur að réttindum milli opinberra starfsmanna og þeirra sem eru á almenna vinnumarkaðinum.