135. löggjafarþing — 99. fundur,  6. maí 2008.

fæðingar- og foreldraorlof.

387. mál
[15:35]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta var geysilega fróðlegt innlegg. Nú held ég að ég sé að byrja að skilja málið. Eða var hv. þm. Pétur H. Blöndal að segja okkur að fæðingarorlofslöggjöfin sé öll honum að þakka? Að þetta hafi verið pínulítil kennslustund í sögu þessa máls sem á sér náttúrlega rætur í umræðum innan verkalýðshreyfingarinnar til margra ára þegar fólk vildi leita leiða til þess að tryggja fólki fæðingarorlof á annan hátt en áður hafði verið. Um það myndaðist síðan víðtæk sátt.

Ég hrósaði jafnan fyrri ríkisstjórn fyrir þau skref sem hún steig í þessum efnum sem ég taldi mjög til framfara. Ég tel löggjöfina almennt hina bestu, en vil engu að síður bæta hana. Ég ítreka að fram hefur komið mjög eindregin krafa frá verkalýðshreyfingunni, bæði Alþýðusambandi Íslands og BSRB, um að fá úr þessu bætt og út á það gengur breytingartillaga okkar.

Við getum síðan spjallað um mismunun sem er að finna í lífeyriskerfi og annars staðar og vonandi fáum við tækifæri til þess að ræða það ef meiri hlutinn hleypir út úr allsherjarnefnd frumvarpi um lífeyrisréttindi þingmanna og ráðherra. Ég velti því fyrir mér hvað dvelur nefndina í þeim efnum. Ég vænti þess að hv. þm. Pétur H. Blöndal beiti sér í því að fá það frumvarp út svo að við getum fengið það til umfjöllunar. Þar sem hann lýsir sig áhugamann um að jafna réttindin þá held ég að við ættum að byrja þar. Við ættum að byrja á þeim punkti.

En ég ítreka að afstaða okkar, sem stöndum að þessu máli, er sú að þarna eigi að jafna kjörin á milli þeirra sem vinna hjá ríki og sveitarfélögum og hinna sem eru á almennum vinnumarkaði.