135. löggjafarþing — 99. fundur,  6. maí 2008.

fæðingar- og foreldraorlof.

387. mál
[15:39]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Í fyrsta lagi er það misskilningur, hæstv. forseti, hjá hv. þm. Pétri H. Blöndal að ég tali fyrir því að jafna öll réttindi. Ég talaði um réttindi láglaunafólks, millitekjuhópa, að jafna ætti þau réttindi upp á við. Síðan hef ég verið ófeiminn við að tala um nauðsyn þess að taka ýmislegt niður og er þar með að tala um lífeyrisréttindi ráðherra og þingmanna og æðstu embættismanna. Sannast sagna finnst mér tvískinnungur hv. þm. Péturs H. Blöndals í þeim efnum ævintýralegur.

Ég man ekki betur en að hv. þingmaður hafi samþykkt það frumvarp á sínum tíma. Er það ekki rétt hjá mér? (Gripið fram í.) Það skertust ekki kjör neinna vegna þess að menn áttu val, sem þá sátu í þessum sal og greiddu atkvæði, um að velja besta kostinn. Þannig var það nú. Og hv. þm. Pétur H. Blöndal, ef hann í einhverju tilviki yrði skertur, gat valið traustari kostinn þannig að það er nú ekki rétt.

Ég held því að menn sem samþykktu þessi lög, eins og hv. þm. Pétur H. Blöndal gerði — hann stóð með ríkisstjórninni og stjórnarmeirihlutanum að samþykkt þeirra laga. Það er staðreynd þessa máls. En nú getum við vonandi látið reyna á í atkvæðagreiðslu um þau lög, vonandi fyrir þinglok, og þá kemur í ljós hver afstaða hv. þm. Péturs H. Blöndals er í þeim efnum.

Hæstv. forseti. Ég held að öll sjónarmið hafi í reynd komið fram í þessu máli. Þau hafa einnig gert það við fyrri umræður. Þau liggja fyrir í yfirlýsingum frá verkalýðshreyfingunni, frá Alþýðusambandi Íslands, í yfirlýsingum BSRB frá fyrri tíð og í tillöguflutningi mínum og hæstv. núverandi félagsmálaráðherra um nákvæmlega þetta þingmál. (Forseti hringir.) Og ég mun náttúrlega ganga eftir því að fá skýringar á því hvað valdi því að þessi breytingartillaga er ekki inni í núverandi stjórnarfrumvarpi.