135. löggjafarþing — 99. fundur,  6. maí 2008.

fæðingar- og foreldraorlof.

387. mál
[15:42]
Hlusta

Birkir Jón Jónsson (F):

Hæstv. forseti. Í upphafi ræðu minnar vil ég segja að við höfðum kannað hvort mögulegt hefði verið að hafa hæstv. félagsmálaráðherra viðstadda þessa umræðu en þar sem við vitum að fram undan er fundur á samráðsvettvangi milli aðila vinnumarkaðarins og ráðherra í ríkisstjórn Íslands viljum við ekki trufla þær mikilvægu umræður. Stjórnarandstaðan hefur kallað mjög mikið eftir því að ríkisstjórnin láti sig þau mál varða og loks þegar að einhverjum hugsanlegum aðgerðum kemur í þeim efnum viljum við að sjálfsögðu ekki trufla það mikilvæga starf, enda er ástandið í samfélaginu og þjóðfélaginu með þeim hætti að mikilvægt er að ríkisstjórnin láti sig það varða á þessum síðustu og verstu tímum.

Hæstv. forseti. Við fjöllum hér um frumvarp til laga um breytingu á lögum um fæðingar- og foreldraorlof en þau lög voru samþykkt á Alþingi árið 2000 og er því ekki um gamla löggjöf að ræða. Í meginatriðum erum við sammála, fulltrúar allra flokka sem í nefndinni sitja, um þær breytingar sem lagðar eru til en hins vegar greinir menn á um hvaða skref eigi að taka í framtíðinni í þeim efnum að bæta enn frekar þá löggjöf sem við ræðum hér. Breytingarnar sem félags- og tryggingamálanefnd öll leggur til eru breytingar á viðmiðunartímabili sem lagt er til grundvallar útreikningum á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði þar sem það er stytt og fært nær töku fæðingarorlofsins. Við það munu fæðingarorlofsgreiðslur til foreldra hækka í kjölfarið. Er gert ráð fyrir að árleg útgjöld aukist um 180–320 milljónir á ári sem er náttúrlega umtalsvert en með hliðsjón af framkvæmd fyrri löggjafar þótti rétt að fara í þessar breytingar sem við framsóknarmenn styðjum.

Hins vegar var athyglisvert að hlusta á upprifjun hv. þingmanna um tildrög fæðingarorlofsins en það var ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks sem flutti frumvarp á Alþingi undir forustu þáverandi félagsmálaráðherra, Páls Péturssonar, um þessa tímamótalöggjöf árið 2000. Við höfum, mörg, haldið því fram að hér sé um að ræða eitt stærsta skref sem stigið hefur verið í jafnréttismálum á síðustu áratugum, skref sem aðrar þjóðir horfa miklum öfundaraugum til. Enda er þetta kerfi mjög dýrt og það eru ekki nema mjög efnuð samfélög og þjóðfélög sem geta haldið uppi þvílíku kerfi sem við Íslendingar höfum komið á sem eins og ég sagði er gríðarlega stórt jafnréttismál því að eins og bent hefur verið á var fæðingarorlofið fyrir einungis örfáum árum þrír mánuðir, föst krónutala og eingöngu bundið við móðurina.

Þær breytingar sem lagðar voru til árið 2000 voru gríðarlegar enda naut frumvarpið mikillar hylli í sölum Alþingis. Eins og ég gat um áðan studdu sjálfstæðismenn á þingi okkur framsóknarmenn í meginatriðum í þessu máli en það verður þó að rifja upp að Sjálfstæðisflokkurinn var ekki alveg samhljóma í afstöðu sinni gagnvart því lagafrumvarpi því að Samband ungra sjálfstæðismanna beitti sér af mikilli hörku á sínum tíma fyrir því — og ég man það sem aðstoðarmaður félagsmálaráðherra þá — að allir níu mánuðirnir yrðu valkvæðir á milli foreldra þannig að ekki væri verið að skilyrða feður í fæðingarorlof í þrjá mánuði og mæður í þrjá. Þetta var vissulega mikil barátta, hæstv. forseti, og ég sé að margir þingmenn brosa hér, en vissulega var Samband ungra sjálfstæðismanna og er enn mjög öflug ungliðahreyfing og rödd hennar heyrðist náttúrlega inn í ríkisstjórnarsamstarfið á sínum tíma. Engu að síður var ákveðið að binda þrjá mánuði við hvort foreldrið og tryggja þannig rétt barnsins til að umgangast bæði föður og móður á upphafsárum sínum. Þetta var verulega gott skref sem var stigið á sínum tíma undir forustu þáverandi félagsmálaráðherra og ríkisstjórnar.

Við erum sem sagt að betrumbæta þetta kerfi í dag og menn greinir á um hversu langt eigi að ganga í því. Ég tók eftir því að hv. þm. Ármann Kr. Ólafsson benti á stöðu ríkissjóðs í þessu samhengi, að forsendur fjárlaga hafa umbylst gjörsamlega á einungis örfáum mánuðum og að taka beri tillit til útgjalda ríkissjóðs í því samhengi. Ég er hv. þingmanni sammála um það að við eigum að sjálfsögðu að horfa til stöðu ríkissjóðs enda var það markmið fyrri ríkisstjórnar að gera ríkissjóð helst skuldlausan. Við getum horft aftur til ársins 1998 þegar ríkissjóður var mjög skuldugur að þá vörðum við Íslendingar sem samsvaraði öllum útgjöldum ríkisins til menntamála í vaxtagjöld. Það er dýrt að vera fátækur og fyrri ríkisstjórn kom því þannig fyrir að hún skilaði af sér skuldlausum ríkissjóði.

Nú bendir hins vegar margt til þess að svo geti farið að ríkissjóður verði rekinn með tugmilljarða króna halla og við slíkar aðstæður þarf að sýna aðgát. Við framsóknarmenn bentum á það við fjárlagaumræðuna á síðasta hausti að ríkisstjórnin væri að þenja efnahagslífið með ansi kröftugum hætti, enda hækkuðu fjárlög á milli ára um heil 20% sem segir okkur að þegar slík skilaboð eru send út í hagkerfið er ekki von á góðu og ekki er stöðugleika að vænta. Við framsóknarmenn ásamt Seðlabankanum, OECD og fleirum vildum sjá að ríkisstjórnin yrði á bremsunni hvað þessi mál áhrærir.

Það sem við ræðum hér er að jafna réttindi á milli starfsmanna hins opinbera og starfsmanna á almenna vinnumarkaðnum og eins og hv. þm. Ögmundur Jónasson benti á áðan fluttu hv. þingmenn Ögmundur Jónasson og Jóhanna Sigurðardóttir breytingartillögur um það á síðasta kjörtímabili. Þáverandi ríkisstjórn vann þá að margháttuðum breytingum á þessari löggjöf og það var ákvörðun á sínum tíma að samþykkja ekki þær breytingartillögur sem þessir þingmenn, núverandi hæstv. félagsmálaráðherra Jóhanna Sigurðardóttir og hv. þm. Ögmundur Jónasson, lögðu þá fram. En eftir að hafa farið mjög ítarlega yfir þetta mál í mjög góðri samvinnu á milli allra flokka innan félags- og tryggingamálanefndar þingsins finnst mér rétt að við reynum að jafna aðstöðu og kjör milli einstakra þjóðfélagshópa eins og minnst var á hér áðan, á milli starfsmanna hins opinbera og starfsmanna á almennum markaði.

Það er hárrétt sem hv. þm. Pétur H. Blöndal benti á áðan að það er mikill mismunur á réttindum opinberra starfsmanna og starfsfólks á almenna vinnumarkaðnum og við eigum að reyna að vinna að því að jafna réttindi á milli þessara hópa rétt eins og við höfum rætt hér á vettvangi þingsins, sum, um réttindi og eftirlaun þingmanna. Það var eitt af fyrstu verkum þess sem hér stendur að samþykkja þau umdeildu lög á sínum tíma og það var mikill darraðardans í kringum það. Ég held að almenningur hafi það á tilfinningunni að þar hafi óbreyttir þingmenn verið að bæta sérstaklega kjör sín. Mér reiknaðist svo til að með því að samþykkja þessa umdeildu löggjöf skertu margir óbreyttir þingmenn eftirlaun sín en aftur á móti bættust eftirlaun margra ráðherra allverulega við þetta. Ég er á því eins og margir aðrir þingmenn sem stóðu að þessari löggjöf þá að við þurfum líka að endurskoða þá löggjöf og samræma réttindi á milli þjóðfélagshópa hvað þessi mál áhrærir og get þar með sagt að ég hafi skipt um skoðun á nokkrum árum eftir að hafa fylgst með þjóðfélagsumræðunni, eftir að hafa rætt þetta í hópi þingmanna og við fólk í samfélaginu, því að við finnum hversu gríðarleg ólgan er m.a. vegna þess gjörnings sem var framkvæmdur á sínum tíma, sem reyndar fór þannig af stað að menn ætluðu að allir þingflokkar mundu standa að löggjöfinni sem varð svo ekki.

Hæstv. forseti. Það verður því áhugavert að fylgjast með atkvæðagreiðslunni um þetta mál, hvort hæstv. ráðherra Jóhanna Sigurðardóttir, sem af eðlilegum ástæðum gat ekki verið viðstödd umræðuna núna, styðji þá breytingartillögu sem hún lagði fram ásamt hv. þm. Ögmundi Jónassyni á síðasta kjörtímabili. Ég hef lýst skoðun minni hvað það varðar, að við þurfum að rétta af í þessum málum og ég er þar af leiðandi tilbúinn að styðja slíkt frumvarp, en ég minntist á það áðan að við þurfum líka, eins og hv. þm. Ármann Kr. Ólafsson minntist hér á, að taka tillit til aðstæðna í efnahagslífinu, hvernig ríkissjóður stendur. Við stjórnarandstæðingar í þingsölum Alþingis höfum óskað eftir því og í raun og veru krafist þess að á vettvangi þingsins og fjárlaganefndar fari fram endurskoðun á forsendum fjárlaga sem eru mölbrotnar eins og hér hefur oft komið fram. Við getum tekið sem dæmi að í forsendum fjárlaga fyrir árið í ár var gert ráð fyrir að verðbólgan yrði 3,3% á þessu ári. Verðbólgan síðustu þrjá mánuði er 28% og það hefði átt að klingja einhverjum bjöllum um að ástæða væri til að endurskoða forsendur fjárlaga og sjá þar af leiðandi hver staða ríkissjóðs er og hver áætlunin er á þessu ári um afkomu ríkissjóðs því að hér er um miklar fjárhæðir að ræða sem eru að sveiflast úr plús í mínus og þar af leiðandi þyrftum við umræðunnar vegna og þeirra ákvarðana sem við ætlum að taka á vettvangi þingsins á næstunni að vera meðvituð um stöðu ríkissjóðs.

Ég tel að ráðast eigi í breytingu sem þessa og vil minna á að enda þótt staða ríkissjóðs sé með þeim hætti að aðgæslu sé þörf getum við líka rætt um ákveðna forgangsröðun. Þegar fjárlagafrumvarpið var lagt fram á síðasta hausti af nýrri ríkisstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks var liður utanríkisráðuneytisins hækkaður um 21,2% á milli ára. Ég minni á málflutning varaformanns Samfylkingarinnar, hv. þm. Ágústs Ólafs Ágústssonar, sem talaði um að utanríkisþjónustan væri sífellt að þenjast út og hvort diplómatar í utanríkisþjónustunni kynnu ekki að nota tölvupóst. Staðreyndin er hins vegar sú að þegar formaður Samfylkingarinnar gerðist utanríkisráðherra hækkuðu framlög til þess málaflokks um 21,2% þegar fjárlagafrumvarpið var lagt fram á meðan framlög til heilbrigðis- og tryggingamála hækkuðu um rúm 8%. Þó að staða ríkissjóðs sé að mörgu leyti erfið í ljósi nýlegra atburða er þetta fyrst og síðast spurning um ákveðna forgangsröðun. Í hvað vilja menn verja peningunum sérstaklega, á hvaða málaflokka leggja menn áherslu?

Hæstv. forseti. Við framsóknarmenn, í góðu samstarfi við sjálfstæðismenn, lögðum metnað okkar í að semja mjög framsækna löggjöf um fæðingar- og foreldraorlof um síðustu aldamót og við eigum að standa vörð um þá löggjöf sem þá var samþykkt á vettvangi þingsins og við eigum að bæta hana. Það er að hluta til verið að gera með nefndaráliti og breytingartillögum félagsmálanefndar sem hér hafa verið lagðar fram en við þurfum að gera betur. Fyrst og síðast snýst þetta um forgangsröðun og það hefur verið forgangsmál okkar framsóknarmanna að bæta stöðu barnafjölskyldna með þeim hætti að lengja fæðingarorlofið og auka þannig réttindi barna til þess að njóta samvista bæði við föður og móður. Eins og ég sagði í upphafi ræðu minnar held ég að hér sé um tímamótalöggjöf að ræða sem samþykkt var árið 2000 og eitt mesta framfaraskref í jafnréttisátt sem við Íslendingar höfum tekið í áratugi.