135. löggjafarþing — 99. fundur,  6. maí 2008.

fæðingar- og foreldraorlof.

387. mál
[16:03]
Hlusta

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil halda því til haga, þar sem við erum að fara yfir þessa ungu löggjöf hér og ræða hana opinskátt, að árið 2004 breytti þáverandi ríkisstjórn undir forustu Framsóknarflokksins í félagsmálaráðuneytinu viðmiðunartímanum þannig að lögin voru hætt að ná markmiðum sínum.

Þessu mótmælti hv. þáverandi þm. Jóhanna Sigurðardóttir, núverandi félagsmálaráðherra, á sínum tíma mjög harkalega. Hún benti á að með þeim viðmiðunartíma sem þá var samþykktur og þeirri breytingu sem þá var gerð mundi það fela í sér ójafnræði millum foreldra. Það mundi jafnframt fela í sér að þegar tekið er mið af 36 mánaða gömlum tekjum mundi ungt fólk með 80% af launum sínum í fæðingarorlofi ekki ná því. Það hefur líka verið raunin og þess vegna er verið að gera þessar mikilvægu breytingar á þessum lögum nú og hefði mátt gera þær fyrr.

Varðandi lengingu á fæðingarorlofi þá er ég þeirrar skoðunar að lengja eigi fæðingarorlof almennt hjá öllum upp í 12 mánuði og það sama eigi að gilda fyrir öll börn, sama hvar foreldrar þeirra starfa. Það á að vera réttur allra barna að fá tólf mánuði með foreldrum sínum.

Um það er kveðið á í stjórnarsáttmála að fæðingarorlofið verði lengt á kjörtímabilinu og við það verður staðið, veit ég. Það er sérstaklega kveðið á um það í tillögu um aðgerðaáætlun í málefnum barna sem var samþykkt hér fyrir þinginu í júní síðastliðnum. Hluti af þeirri aðgerðaáætlun er að lengja fæðingarorlofið.

Virðulegi forseti. Ég tel ekki rétt að slíta einn hóp úr samhengi við aðra heldur eigi að líta á (Forseti hringir.) alla foreldra sem eina heild.