135. löggjafarþing — 99. fundur,  6. maí 2008.

fæðingar- og foreldraorlof.

387. mál
[16:08]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl):

Virðulegi forseti. Það er eins og fram hefur komið hér allgóð samstaða um að afgreiða frumvarpið sem lög frá Alþingi og gera á því smávægilegar breytingar til að mæta athugasemdum og ábendingum sem fram komu við meðferð málsins í félags- og tryggingamálanefnd.

Ég vil aðeins nefna nokkuð sem ekki hefur verið bætt úr enn og lýtur að mismunandi rétti þeirra sem annars vegar eru á almennum vinnumarkaði og hins vegar opinberir starfsmenn hvað varðar orlof í fæðingarorlofi. Þar er vissulega um mismun að ræða sem ekki er unnt að búa við til lengri tíma og stjórnvöld verða að finna lausn á fyrr en seinna.

Þingflokkur Frjálslynda flokksins hefur rætt þessi mál í sínum röðum og komist að þeirri niðurstöðu að það sé rétt að vinna að því að samræma þessi réttindi þannig að ekki verði sá munur á sem er í gildandi lögum og ekki er tekið á með þessu frumvarpi.

Það eru svo auðvitað ýmsar leiðir til að jafna réttindi sem eru mismunandi eins og í þessu tilviki. Eðlilegast er að líta til þess að bæta réttindin hjá þeim hópi þar sem þau eru lökust til samræmis við það sem er hjá hinum sem hafa þau betri. Það er líklega það sem flestir hafa í huga.

Ég held samt að það verði að vekja athygli á því, svo mönnum sé það ljóst að veruleikinn er nú stundum á annan veg en óskirnar standa til, að fyrir fjórum árum var löggjöfinni um fæðingarorlof breytt. Dregið var verulega úr réttindum fólks eins og menn geta kynnt sér með því að skoða stjórnarfrumvarpið sem þá var lagt fram og breytingarnar sem gerðar voru á lögunum. Það var gert af þeirri ástæðu að kostnaðurinn við Fæðingarorlofssjóðinn fór fram úr því sem stjórnvöld reiknuðu með og voru reiðubúin til að standa undir. Þá var gripið til þess ráðs að draga úr réttindunum þannig að kostnaðurinn minnkaði verulega. Mig minnir að í heildina hafi samdrátturinn numið um 1.300 millj. kr. þegar allt var tekið til. Það er auðvitað ansi mikil breyting sem gerð var þá og var rökstudd með því að það væri einfaldlega ekki pólitískur vilji til þess að setja meira fé í sjóðinn á þeim tíma en sem nam þessu.

Auðvitað eru réttindi af þessu tagi alltaf háð því hvað menn komast langt á hverjum tíma. Í þessu frumvarpi nú er verið að stíga að hluta til skref til baka. Það er að hluta til verið að afturkalla þá skerðingu sem gripið var til fyrir fjórum árum. Það er ekki gengið að fullu til baka og skerðingin afnumin. Enn vantar töluvert mikið upp á að réttindin verði þau sömu nú eftir samþykkt þessa frumvarps eins og þau voru fyrir fjórum árum. Ég býst við því að skýringin á því sé einfaldlega sú að það sé að það er einfaldlega ekki pólitískur vilji til þess að stíga stærra skref til þess að endurheimta þau réttindi sem voru skert.

Sama á við um þann þátt sem ég nefndi, samræmingu á orlofsréttindunum. Það er alveg óvíst hvort unnt verði að ná fram pólitískum meiri hluta á þingi fyrir því að jafna muninn þannig að allir fái þau réttindi sem opinberir starfsmenn hafa nú. Ég býst við því að flestir gætu tekið undir að það væri æskilegasti kosturinn og ég held að það eigi við um minn þingflokk. En ég held að það sé ekki rétt að vekja miklar vonir um að ná því fram í skyndingu eða í fyrirsjáanlegri framtíð. Það er alveg ljóst að núverandi ríkisstjórn er ekki tilbúin til að ganga lengra til þess að draga úr fyrri skerðingu en raun ber vitni. En það er þó skref sem munar um og þingheimur hefur sameinast um að styðja.

Annað atriði vil ég nefna sem mér finnst ástæða til að benda á og þykir nú miður ef framsögumaður nefndarinnar er ekki hér. Ég býst þá við því að hann heyri mál mitt. Það er breytingartillaga við 13. gr. frumvarpsins sem er ekki í samræmi við nefndarálit nefndarinnar. Í frumvarpinu er lagt til að skattyfirvöld láti Vinnumálastofnun í té upplýsingar sem nauðsynlegar eru eftirliti með framkvæmd laganna. Það var rætt í nefndinni menn gætu fallist á að Vinnumálastofnun færi með eftirlitið sem er ekkert sjálfgefið mál. Ég er ekki sannfærður um að það sé rétt að hafa eftirlitið með framkvæmd laganna hjá sama aðila og þeim sem framkvæmir lögin. Vinnumálastofnun á að framkvæma þessi lög og samkvæmt lagafrumvarpinu á hún líka hafa eftirlit með þeim. Ég er ekki sannfærður um að það sé besta fyrirkomulagið. Ég get að mörgu leyti tekið undir ábendingar ríkisskattstjóra í þeim efnum.

En gott og vel. Það er alla vega vilji stjórnarmeirihlutans að hafa þetta með þessu laginu. Þá kemur til álita að sá sem á að hafa eftirlitið með höndum, Vinnumálastofnun, þarf að fá upplýsingar til að staðreyna þær upplýsingar sem lagðar eru fram og réttindi viðkomandi einstaklings til fæðingarorlofs byggjast á. Það er sem sé mælt fyrir um það í frumvarpinu að skattyfirvöld skuli láta Vinnumálastofnun í té upplýsingar sem nauðsynlegar eru eftirliti með framkvæmd laganna. Það er nú býsna mikið að ætlast til þess af skatteftirlitinu að það afhendi upplýsingar út fyrir sín vébönd.

Í nefndinni var rætt um að fallast á þetta með því fororði, eins og segir í nefndarálitinu, með leyfi forseta:

„Telur nefndin nauðsynlegt að gætt sé meðalhófs við framkvæmd slíkra ákvæða og að persónuvernd sé tryggð. Leggur nefndin því til breytingar á b-lið 13. gr. frumvarpsins í þá veru að fram komi á umsókn um fæðingarorlof upplýsingar til umsækjanda um að hann samþykki jafnframt að skattyfirvöld láti Vinnumálastofnun í té upplýsingar sem nauðsynlegar eru eftirlitinu með framkvæmd laganna, enda sé það forsenda bótanna.“

Umsækjandi þarf að samþykkja að Vinnumálastofnun geti fengið upplýsingarnar hjá skatteftirlitinu. Þá er ekki bara um að ræða að í lögum sé kveðið á um að skattyfirvöld skuli láta upplýsingarnar í té af hendi heldur liggi líka fyrir samþykki viðkomandi einstaklings fyrir því að skattyfirvöld afhendi upplýsingarnar. Það er nauðsynlegt að mati okkar sem töluðum fyrir þessu.

Nefndarálitið er sem sé algjörlega í samræmi við það sem varð niðurstaðan í nefndinni en breytingartillagan er það ekki. Hún er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Á eftir orðunum ,,eftirlitinu með framkvæmd laganna“ í b-lið 13. gr. komi: enda hafi umsækjandi verið upplýstur um það.“

Það er allt annað, virðulegi forseti. Það er ekki það sama að umsækjandi sé upplýstur um að Vinnumálastofnun geti sótt upplýsingar til skattyfirvalda. Það er ekki það sama og hann hafi samþykkt það.

Ég fer fram á það að þessu verði breytt, virðulegi forseti, annaðhvort fyrir atkvæðagreiðslu núna — það er hægt að gera breytingar á þingskjalinu í skyndingu — eða þá í síðasta lagi við 3. umr. málsins. Ég hygg að þetta sé einhver handvömm. Ég beini þessu til varaformanns nefndarinnar sem er hér staddur og ég vona að hann taki þetta til athugunar. Ég undirstrika að ég tel að það sé ekki ágreiningur í nefndinni um þá niðurstöðu sem fram kemur í nefndarálitinu. Ég tel að það hafi verið niðurstaðan. Ef niðurstaðan hefur verið sú sem stendur í breytingartillögunni þá kemur það mér á óvart og þá er ágreiningur í nefndinni.

Virðulegi forseti. Ég held ég hafi ekki fleiri orð um málið. Ég styð það fyrirvaralaust. Auðvitað er margt í því sem maður vildi hafa á annan veg. Það er eins og gengur með öll stór mál sem eru margir fletir á, að það er enginn vandi fyrir hvern og einn þingmann að finna í lögum eða í frumvarpi eitthvað sem hann vill hafa öðruvísi. En menn verða alltaf að lokum að svara því: Ætla þeir að styðja það sem lagt er til og breið samstaða er um? Svar mitt við því er já. Og svo höldum við áfram að breyta lögunum í framfaraátt á næstu árum eftir því sem okkur endist pólitískt líf og heilsa til.