135. löggjafarþing — 100. fundur,  7. maí 2008.

sameining heilbrigðisstofnana á landsbyggðinni.

564. mál
[12:19]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Kristni H. Gunnarssyni fyrir þessa fyrirspurn. Eins og hv. þingmaður fór yfir þá hefur um langt skeið eða um ákveðið skeið verið heimilt samkvæmt lögum að sameina stofnanir í eigu ríkisins fyrir heilbrigðisráðherra.

Í lögum um heilbrigðisþjónustu, nr. 40 frá 27. mars 2007, er ráðherra heimilt að sameina heilbrigðisstofnanir innan heilbrigðisumdæma með reglugerð og hliðstæð heimild var í eldri lögunum. Nú þegar er búið að sameina heilbrigðisstofnanir víða um land, til dæmis á Austurlandi árið 1999, en það svæði nær frá Vopnafirði til Djúpavogs og er reynslan af þeirri sameiningu góð. Einnig má nefna að heilbrigðisstofnanir á Suðurlandi voru sameinaðar árið 2004 og er það dæmi vel heppnaða sameiningu. Fleiri dæmi mætti nefna.

Hv. þingmaður spyr meðal annars hvaða stofnanir sé verið að sameina. Því er til að svara að á Vesturlandi er ætlunin að sameina heilsugæslustöðvarnar í Ólafsvík, Grundarfirði, Borgarnesi, Búðardal, Reykhólum og Heilbrigðisstofnunina í Stykkishólmi. Á Vestfjörðum eru það heilbrigðisstofnanir á Ísafirði og Bolungarvík sem áætlað er að sameina og á Norðurlandi munu heilbrigðisstofnanir á Blönduósi og Sauðárkróki vera sameinaðar í eina stofnun og síðan eru það heilsugæslustöðvarnar á Dalvík og Ólafsfirði og Heilbrigðisstofnunin á Siglufirði sem verða sameinaðar. Markmiðið með sameiningu stofnana er eins og áður að styrkja heilbrigðisþjónustuna á viðkomandi svæðum og skapa sterkari rekstrareiningar með samþættingu í starfsemi stofnana og samnýtingu ýmissa kostnaðarþátta. Sameiningunni er ætlað að efla þá heilbrigðisstarfsemi sem þegar er á svæðunum en ekki veikja.

Fjárveitingar til heilbrigðisstofnana eru meðal annars metnar út frá stærð þjónustusvæðisins og fjölda íbúa á svæðinu og er ekki gert ráð fyrir því að þar verði neinar breytingar á.

Hv. þingmaður spyr hvort það séu einhver sérstök vandræði í rekstri þeirra stofnana sem sameina á varðandi fjárhag eða þjónustu sem sameiningu er ætlað að bæta úr. Því er til að svara að ekkert slíkt er tilefni þessara aðgerða. Reynslan er hins sú að stærri stofnanir hafa meira bolmagn til ýmissa verka, svo sem að fá til sín sérhæfða heilbrigðisþjónustu og þar með efla þá þjónustu sem fyrir er á svæðinu. Meiri þjónusta fer fram í heimabyggð, mönnun er tryggari og fleira mætti nefna.

Ég endurtek að markmið sameiningarinnar er að efla og styrkja heilbrigðisþjónustuna á svæðinu. Hliðstæð dæmi mætti nefna úr öðrum geirum opinberrar þjónustu sem og annarri þjónustu. Það er því mitt mat að um jákvæða og eðlilega þróun sé að ræða sem muni koma íbúum á viðkomandi svæði til góða.

Virðulegi forseti. Ég vona að þessar upplýsingar svari spurningum hv. þingmanns.