135. löggjafarþing — 100. fundur,  7. maí 2008.

sameining heilbrigðisstofnana á landsbyggðinni.

564. mál
[12:21]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Ég held að flestum hafi komið mjög á óvart að fá það sem tilkynningu frá heilbrigðisráðherra að nú ætti að leggja niður heilbrigðisstofnanir víða um land og sameina þær bara með svona bréfi án nokkurs fyrirframsamráðs við heimafólk, án nokkurs fyrirframsamráðs við sveitarstjórnir. Það var jú boðað eftir að búið var að senda út bréfið og taka ákvörðunina að framkvæmdin yrði síðan skoðuð í einhverju samráði við heimafólk. En ekkert hefur heyrst í þeim efnum.

Ég tel þetta mjög varhugaverða þróun, óunna og óskipulega. Ég tel að stoppa eigi þetta ferli nú og taka upp raunverulegar viðræður við heimafólk um skipan heilbrigðismálanna í héraðinu. Þetta eru grunnþættir fyrir samfélagið og grunnþættir í búsetuskilyrðum viðkomandi (Forseti hringir.) samfélaga og á ekki að umgangast það með tilskipunarformi.

Í lokin, frú forseti: Ég tel líka að þetta samrýmist ekki lögum um fjárreiður ríkisins því þetta er þegar sundurgreint á fjárlögum og það verður þá að gera það um næstu áramót ef út í það væri farið.