135. löggjafarþing — 100. fundur,  7. maí 2008.

sameining heilbrigðisstofnana á landsbyggðinni.

564. mál
[12:27]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Fyrst aðeins út af orðum hv. þm. Jóns Bjarnasonar því hann virtist ekki alveg hafa áttað sig á málinu. Hann talaði um að það yrði kannski best að þetta yrði bara um næstu áramót. Það er nákvæmlega það sem verður og ég held að það sé ekki hægt að vinna það betur en taka þennan góða tíma sem við erum að gefa til að fara yfir þetta og eðli málsins samkvæmt er þetta mótað í samráði við þá aðila sem að þessu málum koma. Það hefur verið gert og það verður gert áfram.

Varðandi áskoranir hv. þm. Kristins H. Gunnarssonar þá er alveg sjálfsagt að fara yfir það með þingmönnum viðkomandi kjördæmis og hefur ekkert staðið annað til, enda er ekki hægt að vinna að svona málum án þess að vinna það með þeim aðilum sem að málinu koma. Það vitum við öll í þessum sal.

Það er alveg hárrétt hjá hv. þm. Kristni H. Gunnarssyni að máli skiptir að þetta sé lagt upp með þeim hætti að þeim sem þurfa á þjónustunni að halda og viðkomandi heimamönnum sé ljóst hvað þarna sé um að ræða og að verið sé að fara yfir það. Það gefast ýmis sóknarfæri í þessu og hann nefndi ákveðið byggðarlag, Bolungarvík, í því sambandi. Ég lít svo á að þetta muni styrkja þjónustuna þar og þannig er lagt upp með þessa sameiningu.

Við þekkjum að þjónustan er að verða miklu sérhæfðari en verið hefur áður. Þetta er þverfagleg vinna í auknum mæli og mönnun byggist meðal annars á því hvernig gengur að hafa, þ.e. hvort hægt sé að bjóða upp á þá þjónustu sem starfsmenn vilja líka vinna við. Þess vegna hafa þessar stærri einingar gengið vel. Austurland er ágætisdæmi sem ég veit að hv. þm. Þuríður Backman þekkir vel. Ég held að enginn vilji snúa til baka eftir þá sameiningu. Það eru ýmis (Gripið fram í.) dæmi um slíkt og sem betur fer hafa bættar samgöngur breytt hlutum mjög á landsbyggðinni. Ég held að við (Forseti hringir.) getum náð góðum árangri og veit að við getum náð góðum árangri enda tökum við góðan tíma í að undirbúa þetta eins og allir vita sem skoða málið.