135. löggjafarþing — 100. fundur,  7. maí 2008.

endurskoðun laga um gagnagrunn á heilbrigðissviði.

573. mál
[12:29]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Þuríður Backman) (Vg):

Hæstv. forseti. Málefni Íslenskrar erfðagreiningar hafa verið nokkuð í umræðunni upp á síðkastið af ýmsum ástæðum, bæði vegna þess hvað fyrirtækið og starfsmenn þess hafa staðið sig vel í rannsóknum og því sem snýr að rekstri vísindastarfsemi fyrirtækisins og eins hafa verið skrif um hinn miðlæga gagnagrunn á heilbrigðissviði sem Íslensk erfðagreining fékk til rekstrar á sínum tíma með sérstökum lögum þar um. Þessi skrif urðu til þess að ég hugsaði til upphafs þessa máls og stöðu hins miðlæga gagnagrunns eins og hann er í dag en eins og öllum er kunnugt varð ekkert af þeim hugmyndum að koma upp miðlægum gagnagrunni á heilbrigðissviði og fela gagnagrunninn einkaaðila, þ.e. Íslenskri erfðagreiningu eða deCODE. Ég lagði fram fyrirspurn til hæstv. fjármálaráðherra um hvort hæstv. fjármálaráðherra mundi beita sér fyrir afnámi ríkisábyrgðar á skuldabréfum út gefnum af deCODE, fyrirspurn sem hæstv. ráðherra er búinn að svara. Þetta var heimild sem var bundin rekstri gagnagrunnsins.

Í þessu vil ég sambandi spyrja hæstv. heilbrigðisráðherra um endurskoðun laga um gagnagrunn á heilbrigðissviði, hvort ráðherrann hafi endurskoðun á lögum um gagnagrunn á heilbrigðissviði, nr. 139/1998, í huga, samanber 19. gr. laganna og hvort hæstv. ráðherra hafi tekið afstöðu til tímabundins rekstrarleyfis Íslenskrar erfðagreiningar til starfsrækslu gagnagrunnsins.

Hæstv. forseti. Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra gaf út tímabundið rekstrarleyfi á grundvelli laganna til Íslenskrar erfðagreiningar ehf. þann 22. janúar árið 2000, til gerðar og starfrækslu gagnagrunnsins og gildir rekstrarleyfið til 12 ára. Rekstrarleyfið fellur því úr gildi eftir tæp fimm ár, eða þann 22. janúar 2012. Ég vil í þessu sambandi benda á að svo lengi sem lögin eru í gildi er þessi heimild til staðar og gæti einnig endurvakið heimild til ríkisábyrgðar ef málið færi í gang. Ég hefði talið að miðað við stöðu mála væri það hreinsun í lagasafni Alþingis að fella þessi lög úr gildi en mig langar til að heyra álit hæstv. ráðherra á því.