135. löggjafarþing — 100. fundur,  7. maí 2008.

öryggi vegasambands við Ísafjörð um Súðavíkurhlíð.

390. mál
[12:49]
Hlusta

samgönguráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa fyrirspurn og hv. þingmanni sem tók þátt í þessari umræðu. Öll vitum við um nauðsyn þess að bæta vegasamgöngur, hvort sem er á höfuðborgarsvæðinu eða á landsbyggðinni. Á landsbyggðinni bætast svo aðrir þættir við eins og hv. þingmaður nefndi hér, skriðuföll og annað slíkt, það er nú bara þannig.

Þar sem hv. þingmaður vill að ég kveði fastar að orði en ég hef hér gert — ég hef sagt að þetta sé áhugaverður kostur að skoða og að við þurfum að taka þetta upp og skoða við gerð næstu tólf ára samgönguáætlunar. Næsta áætlun, sem við erum að vinna eftir, var að vísu ekki samþykkt af þeim hv. þingmanni sem flytur fyrirspurnina heldur sat hann hjá, en þar var þessum framkvæmdum á Vestfjörðum raðað inn. Bolungarvíkurgöngin eiga t.d. að opnast laugardaginn 17. júlí 2010. Við höfum sett inn göng milli Arnarfjarðar og Dýrafjarðar sem hafist verður handa við á næstu árum en þar er ekki talað um Súðavíkurgöng. Ég get sagt, virðulegi forseti, og hef sagt það áður, að mér fannst alltaf mjög undarlegt að Súðavíkurgöng væru ekki rædd meira af þingmönnum Norðvesturkjördæmis. Ég þekki þennan veg vel og þetta svæði af því að ég fer oft þarna um. En þetta var samþykkt, þar á meðal af þingmönnum Norðvesturkjördæmis og engar breytingartillögur komu fram hvað þetta varðar, ekki einu sinni frá hv. þm. Jóni Bjarnasyni. (Gripið fram í.)

Hv. þingmaður talar um að kýla á framkvæmdir. Það er ódýrt að tala en við þurfum hins vegar að fjármagna svona dæmi og þrátt fyrir vel upp setta samgönguáætlun, með miklum peningum í, er þetta leiðin sem við erum að vinna að þarna á norðanverðum Vestfjörðum, Bolungarvíkurgöng og Dýrafjarðargöng þar á eftir. Hv. þingmaður talar um að gera þau samhliða, Súðavíkurgöng og Bolungarvíkurgöng. Þetta er nú frekar ódýrt, ef svo má að orði komast, vegna þess að það má spyrja — þó að ég vilji síður gera það hér þar sem hv. þingmaður hefur ekki (Forseti hringir.) tækifæri til að svara fyrir það, hann gerir það kannski seinna — hvort hv. þingmaður vilji kannski fresta Dýrafjarðargöngum? (JBjarn: Nei, það vil ég alls ekki.)