135. löggjafarþing — 100. fundur,  7. maí 2008.

stofnanir á sviði samgöngumála og Háskólinn á Akureyri.

417. mál
[12:55]
Hlusta

samgönguráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Ólöf Nordal beinir til mín fyrirspurn um stofnanir á sviði samgöngumála og Háskólann á Akureyri.

Fyrri spurningin er svohljóðandi:

„Telur ráðherra mögulegt að færa hluta af starfsemi stofnana á sviði samgönguráðuneytis, t.d. á sviði vegamála og siglingamála, til Akureyrar?“

Vegagerðin hefur þegar flutt hluta af starfseminni til Akureyrar í samræmi við þá stefnu að efla starfsemi í starfsstöðvum sínum úti á landi. Auk starfsfólks sem vinnur að uppbyggingu, umsjón og viðhaldi vegakerfisins á Norðausturlandi er á Akureyri starfsfólk sem vinnur að veghönnun, jarðfræði, umferð, umferðareftirliti og stjórnun verkefna á landsvísu. Samtals starfa 36 manns í starfsstöð Vegagerðarinnar á Akureyri.

Siglingastofnun er lítil stofnun og því óhentugt að flytja hluta af starfsemi hennar. Við slíkt þyrfti að hafa í huga að stofnunin er þjónustustofnun í miklum samskiptum við ráðuneyti og stofnanir, sveitarstjórnir, sjómenn og útgerðarmenn auk hagsmunasamtaka. Umfram allt þyrftu þessir aðilar að vera samþykkir færslu stofnunarinnar til Akureyrar. Fulltrúar þeirra aðila sem hafa aðsetur úti á landi samnýta gjarnan ferðir til höfuðborgarinnar og hitta fulltrúa fleiri en einnar stofnunar og samtaka í sömu ferð. Þá má minna á mótmæli fulltrúa útgerðarinnar er flytja átti skipaskráningar til Ísafjarðar árið 2006. Ég vil svo minna á að Siglingastofnun er með starfsstöð á Ísafirði og Hornfirðingar hafa líka bankað upp á og verið að sækja eftir starfi þangað, sem reyndar er unnið af ágætum íbúa á Hornafirði. Ég vil geta þess líka að Ríkisendurskoðun vinnur nú að úttekt á mögulegum skipulagsbreytingum Vegagerðar og Siglingastofnunar. Þær tillögur verða skoðaðar gaumgæfilega í samgönguráðuneytinu þegar þær líta dagsins ljós.

Önnur spurning frá hv. þingmanni, virðulegi forseti, er svohljóðandi:

„Er að mati ráðherra grundvöllur fyrir samstarfi milli Háskólans á Akureyri og stofnana á sviði samgöngumála til að renna frekari stoðum undir starfsemi skólans?“

Vegagerðin hefur nú þegar svipað samstarf við Háskólann á Akureyri og hún hefur við Háskóla Íslands og Háskólann í Reykjavík. Það samstarf felst einkum í rannsóknum sem Vegagerðin semur um framkvæmd á við viðkomandi háskólastofnanir. Siglingastofnun hefur átt gott samstarf við Háskóla Íslands, Háskólann á Akureyri, Háskólann á Bifröst, Háskólann í Reykjavík og Fjöltækniskóla Íslands. Í sumum tilfellum hefur verið um kaup á hagrænum úttektum að ræða en í öðrum samvinnu um einstök rannsóknarverkefni eða lokaverkefni.

Árið 2005 gerði Siglingastofnun samning við Háskóla Íslands um kennslu á námskeiðum í strandverkfræði á meistarastigi umhverfis- og byggingafræðiskorar og hefur það gengið vel. Við val á háskóla til samstarfs hefur staðsetning ekki skipt máli heldur hvort viðkomandi háskóli hafi haft sérfræðinga á því sviði sem verkefnin hafa kallað á hverju sinni. Í því sambandi má nefna að lektor við Háskólann á Akureyri hefur unnið fyrir stofnunina á sviði skiparannsókna.

Eitt af því sem Flugmálastjórn keppir að er að stunda skuli rannsóknir og þróun á sviði flugmála til að styðja vandaða ákvarðanatöku og eftirlit. Flugmálastjórn er einnig í tengslum við fjölda erlendra stofnana tengdar flugi. Ekkert er því til fyrirstöðu að vinna að slíkum verkefnum í samstarfi við Háskólann á Akureyri.