135. löggjafarþing — 100. fundur,  7. maí 2008.

lenging flugbrautar á Bíldudal.

490. mál
[13:04]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Jón Bjarnason) (Vg):

Frú forseti. Ég beini fyrirspurn til hæstv. samgönguráðherra um lengingu flugbrautarinnar á Bíldudal. Fyrirspurnin hljóðar svo:

1. Hvað er flugbrautin á Bíldudal löng og hver er afkastageta vallarins við núverandi aðstæður?

2. Liggja fyrir áform um lengingu flugbrautarinnar?

3. Hvað mundi kosta að lengja flugbrautina um 250–300 metra og eru einhverjar tæknilegar hindranir fyrir því?

4. Hvaða áhrif hefði lengingin á afkastagetu og þjónustustig flugvallarins?

5. Hvaða áhrif gæti lenging brautarinnar haft fyrir aukna ferðamennsku og sjóstangveiði vestra og útflutning sjávarfangs þaðan?

6. Kæmi til greina að lenging flugbrautarinnar yrði sértæk flýtiaðgerð til að skjóta styrkari stoðum undir samgöngur og auka samkeppnishæfni þjónustu og atvinnulífs á sunnanverðum Vestfjörðum?

Rætt var um það áðan að horfa til framtíðar og ég tek undir það með hv. þm. Ólöfu Nordal að horfa til framtíðar fyrir landið allt. Þess vegna flyt ég þessa fyrirspurn um flugvöllinn á Bíldudal en hann gegnir lykilhlutverki fyrir samgöngur við sunnanverða Vestfirði. Ytri skilyrði til lendinga á flugvellinum eru almennt góð og fellur áætlunarflug sjaldan niður. Hins vegar er núverandi flugbraut einungis rúmir 900 metrar, eða 940 metrar, og takmarkar það bæði stærð og þyngd flugvéla sem farið geta um völlinn. Hefur það m.a. háð flutningum á dagvöru til svæðisins og öðrum vöruflutningum að og frá og þjónustu sem hægt væri að efla með fluginu.

Það má benda á að nýlega var póstþjónustan skert við svæðið og fer hún nú öll landleiðina sem þýðir að póstur og pakkavara er fleiri daga að berast til og frá stöðunum. Starfsmanninum sem ók póstinum frá flugvellinum og um byggðina daglega hefur verið sagt upp störfum og er póstinum ekið frá Reykjavík. Ekki var það atvinnubót eða hækkun á þjónustustigi við Vestfirði eða við þetta svæði, frú forseti.

Bæði bæjarstjórnir Tálknafjarðar og Vesturbyggðar hafa einmitt ályktað mjög ákveðið um að ráðast þurfi í lengingu og endurbætur á flugvellinum á Bíldudal. Hv. þm. Ingibjörg Inga Guðmundsdóttir ræddi hér fyrir skömmu um Patreksfjarðarflugvöll. Í þeim aðgerðum sem við erum að takast á við núna til að styrkja og efla innviði þessara byggðarlaga eigum við að grípa til þeirra tækja sem eru fyrir hendi og hægt er að efla og byggja upp og þar á meðal er flugvöllurinn á Bíldudal. Því beini ég þeirri fyrirspurn til hæstv. samgönguráðherra hvort til greina komi að setja það í sérstaka flýtiframkvæmd að lengja flugvöllinn á Bíldudal þannig að hann svari (Forseti hringir.) betur kröfum framtíðarinnar.