135. löggjafarþing — 100. fundur,  7. maí 2008.

lenging flugbrautar á Bíldudal.

490. mál
[13:11]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Jón Bjarnason) (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin hvað laut að því að ráðist yrði í sumar, eftir því sem ég skildi, í bæði tæknilega og kostnaðarlega úttekt á möguleikum á lengingu flugvallarins upp í 1.199 metra þannig að það lægi fyrir í haust og því væri hægt að taka tillit til þess við fjárlagagerð næsta árs.

Eins og fram kom hjá hæstv. ráðherra þá eru aðgerðir á flugvellinum á Bíldudal ekki á samgönguáætlun eða flugmálaáætlun. Þess vegna er einmitt brýnt og mikilvægt að heyra þessi orð hæstv. ráðherra. Ég vil árétta það sem ég sagði áðan að það skiptir gríðarlega miklu máli fyrir þetta svæði að fá þangað öflugt flug og að flugvélar sem bæði flytja fleiri farþega og meiri flutninga hafi möguleika á að geta lent þar og athafnað sig. Eins og nú er takmarkar afkastageta flugvallarins stærð véla sem geta flutt bæði vörur og farþega.

Ég vitna til, frú forseti, fréttasíðu bildudalur.is frá 7. maí þar sem greint frá því að vegna þess hve flugvöllurinn er lítill varð að skilja eftir flutning í Reykjavík vegna þess að flugvélin gat ekki tekið hann og því varð að fara tvær ferðir með litlar vélar sem hefði verið mun hagkvæmara að gera með einni auk þess sem meiri flutningsgeta væri í boði og aðilar bæði á sunnanverðum Vestfjörðum og höfuðborgarsvæðinu gætu reitt sig á öflugri flutningsgetu. Ég er ekki sammála hæstv. ráðherra að ekki liggi á að gera þetta. Jú, það liggur á (Forseti hringir.) að lengja flugbrautina á Bíldudal, frú forseti.