135. löggjafarþing — 100. fundur,  7. maí 2008.

fargjöld með Herjólfi.

508. mál
[13:18]
Hlusta

samgönguráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Í samningi milli Vegagerðar og Eimskipafélags Íslands ehf. um rekstur Herjólfs er gert ráð fyrir að verktaki geti óskað eftir endurskoðun á gjaldskrá einu sinni á ári og skal þá höfð hliðsjón af verðbreytingum samnings sem eru með eftirfarandi hætti:

Vinnulaun: 1% breyting á launavísitölu breytir samningsverði um 0,6%.

Olíukostnaður: 1% breyting á verði gasolíu til skipa breytir samningsverði um 0,2%.

Hafnargjöld: 1% breyting á hafnargjöldum breytir samningsverði um 0,1%.

Annar rekstrarkostnaður: 1% breyting á byggingarvísitölu breytir samningsverði um 0,1%.

Verðbreytingar miðað við framangreinda þætti voru rétt rúm 8% á tímabilinu frá janúar 2007 til janúar 2008 og var Eimskipafélaginu því heimilað að hækka gjaldskrána sem því nemur. Gildir sú hækkun út árið 2008.

Hafa ber í huga að leiðin milli Vestmannaeyja og Þorlákshafnar eru 74 km og bifreiðaeigendur sem aka sömu vegalengd bera kostnað af akstrinum. Ökumenn þurfa að greiða fyrir bensín og olíu jafnharðan og þeir kaupa hana og þar með finna þeir jafnt og þétt fyrir verðhækkunum á eldsneyti. Farþegar Herjólfs finna fyrir sambærilegum hækkunum árlega. Ferðakostnaðarnefnd ríkisins hefur reiknað almennt akstursgjald, 76 kr. á km, sem samsvarar 5.624 kr. fyrir hverja 74 km akstur. Fargjald með Herjólfi á árinu 2008 fyrir bíl og tvo fullorðna farþega er 6.480 kr. án afsláttar. Með afslætti er hægt að ná verðinu niður í 3.938 kr. Flestir sem fara oft með ferjunni nýta sér afsláttinn. Við upphaf siglinga á milli Vestmannaeyja og Landeyjahafnar er gert ráð fyrir stórfelldri lækkun á fargjöldum með Herjólfi, enda er siglingaleiðin mun styttri.