135. löggjafarþing — 100. fundur,  7. maí 2008.

störf þingsins.

[13:36]
Hlusta

Valgerður Sverrisdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég kem upp út af því máli sem hv. 10. þm. Suðvesturkjördæmis nefndi og það kemur vel á vondan, ef þannig má að orði komast, að það skuli vera forseti Samfylkingarinnar sem fær það hlutverk að svara spurningum sem varða frumvarp um sjúkratryggingar þar sem þetta málefni var náttúrlega grundvallaratriði í sambandi við samning stjórnarflokkanna um myndun ríkisstjórnar.

Nú spyr ég hæstv. forseta: Hvernig má það vera að þetta mál skuli vera að koma inn í þingið núna þegar svo fáir dagar eru eftir, þegar ríkisstjórnin er búin að hafa allan veturinn til að vinna að málinu og borist hafa fregnir af því að málið sé búið að vera alllengi hjá ríkisstjórninni og hafi farið inn og út úr ríkisstjórninni? Ég veit ekki hvort það er rétt en hæstv. forseti þekkir það sjálfsagt. Ég mótmæli því náttúrlega að vinna eigi þetta mál á örfáum dögum. Gera á grundvallarbreytingu á heilbrigðiskerfinu með þessu frumvarpi og það gengur ekki að gera slíkt á tíu dögum eða svo. Ég held að það sé betra að hæstv. forseti lýsi því strax yfir að málið verði geymt til haustsins og þá getum við sinnt öðrum málum sem vissulega eru í heilbrigðisnefnd og í öðrum nefndum þingsins.