135. löggjafarþing — 100. fundur,  7. maí 2008.

störf þingsins.

[13:40]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Ég tek undir þau mótmæli sem hér hafa komið fram að mál af þessu tagi skuli sett á dagskrá með afbrigðum, sem reyndar er ekki búið að veita. Við skulum átta okkur á því að þótt það sé áform stjórnarflokkanna að koma málinu á dagskrá á morgun er ekki búið að gefa græna ljósið.

Ég vil líka mótmæla þeim hroka sem kom fram í máli hv. formanns heilbrigðisnefndar rétt áðan sem felur það í sér að ef fjalla á um þetta mál, þetta hitamál á nefndadögum í næstu viku verður það gert án þess að umsagnaraðilar verði búnir að veita sínar umsagnir. Hvað ætlar hv. formaður heilbrigðisnefndar að veita þeim umsagnaraðilum sem eðlilegt er að tjái sig um málið langan tíma til að fjalla um það og veita faglega umsögn? Engan, nákvæmlega engan.

Ég bendi á að það eru sjö þingfundadagar eftir af þinginu ef frá er talinn eldhúsdagur og þingfrestunardagur, sjö almennir þingfundadagar. Það er auðvitað út úr öllu korti að ætla að setja mál, sem gerir ráð fyrir því að heilbrigðisþjónusta á Íslandi verði meira og minna sett á markað, á dagskrá þegar eftir eru sjö þingfundadagar. Því er eðlilegt að slíkum vinnubrögðum sé mótmælt, hæstv. forseti, og ég treysti því að forseti Alþingis hafi vit fyrir stjórnarmeirihlutanum í þessum efnum og neiti að taka málið á dagskrá á morgun.