135. löggjafarþing — 100. fundur,  7. maí 2008.

störf þingsins.

[13:42]
Hlusta

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Ég kem upp til að taka undir það sem sagt hefur verið af hálfu þeirra sem hafa gert athugasemdir við vinnubrögðin hér. Fyrst vil ég þakka frú forseta fyrir svörin við þeirri fyrirspurn sem ég kom með í upphafi, það var ágætt að fá að vita það. Mér finnst engu að síður að forseti þurfi ekki aðeins að kanna stöðu mála, mér finnst að ráðherrar eigi að fá þau skilaboð frá forseta að þurfi þeir miklu lengri frest en þingsköpin kveða á um sé lágmark að þeir hafi samband við þann þingmann sem á viðkomandi fyrirspurn og reyni að semja um með hvaða hætti fyrirspurninni verði svarað og á hvaða tíma svo menn geti verið sæmilega sáttir við það og viti hvaða orsakir liggja þar að baki en menn bíði ekki og bíði og viti ekkert hvað ráðherrarnir eða ráðuneytin eru að gera í því efni.

Varðandi það mál sem síðan var tekið upp, heilbrigðisþjónustufrumvarpið, er rétt í því sambandi að vekja athygli á að það er ekki bara eina stóra stjórnarfrumvarpið sem er að koma hér inn undir lok þingsins, mörg stór stjórnarfrumvörp hafa komið inn eftir að frestinum lauk 1. apríl og bersýnilega er ætlast til að þau verði afgreidd fyrir sumarhlé.

Spurningin er því þessi: Stóð ekki til af hálfu hæstv. forseta m.a. þegar hann tók við því starfi eftir síðustu kosningar að bæta vinnubrögðin á Alþingi, bæta löggjafarstarfið og gefa rýmri tíma til löggjafarstarfsins þannig að vinnubrögðin yrðu betri og löggjöfin betri? Var það ekki meiningin? Er það ekki m.a. ástæðan fyrir því að menn setja sér frest til 1. apríl til að leggja fram ný þingmál, a.m.k. ef ætlast er til að þau verði afgreidd?

Mér finnst að forsetar verði að taka umræðu um þetta mál og taka af skarið hvað þetta snertir. Ef ætlast er til að mál séu afgreidd verða þau að koma fyrir 1. apríl. Að öðrum kosti verða ráðherrarnir að sætta sig við að þau fáist ekki afgreidd fyrir vorið, (Forseti hringir.) enda eru líka dagarnir í september væntanlega til þess að taka af einhvern kúf í þessum efnum.