135. löggjafarþing — 100. fundur,  7. maí 2008.

störf þingsins.

[13:47]
Hlusta

Arnbjörg Sveinsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Það hefur komið fram og ég hef rætt það við þingflokksformenn stjórnarandstöðuflokkanna að við höfum óskað eftir því að þetta mál komi á dagskrá á morgun. Ég reikna satt að segja með því að forseti verði við þeim óskum og við höfum þá atkvæðagreiðslu sem á þarf að halda til að þetta frumvarp geti verið á dagskrá. Það verður auðvitað ekki gert nema þingheimur leyfi það og þess vegna mun sú atkvæðagreiðsla sem væntanlega fer fram á morgun skera úr um hvort við ræðum þetta frumvarp á morgun eður ei. Ég tel fullkomlega eðlilegt að það verði gert því að eins og kom mjög skýrlega fram í máli hv. þm. Ástu Möller, formanns heilbrigðisnefndar, þá hafa menn vitað af því að frumvarpið væri á leiðinni inn í þingið. Menn þekkja meginlínurnar í þessu frumvarpi þannig að ég trúi því (Gripið fram í.) að þingmenn hafi gert ráð fyrir því að eiga eftir að ræða þetta mál í vetur. (Gripið fram í.) Umsagnaraðilar munu væntanlega líka koma sínum sjónarmiðum á framfæri varðandi þetta mál. Ég trúi ekki öðru. Það eru venjuleg vinnubrögð í þinginu. En ég tel það sem sagt fullkomlega eðlilegt miðað við forsögu málsins að málið verði rætt á morgun.