135. löggjafarþing — 100. fundur,  7. maí 2008.

störf þingsins.

[13:51]
Hlusta

Höskuldur Þórhallsson (F):

Herra forseti. Íslenskt efnahagslíf stendur nú frammi fyrir meiri vanda en blasað hefur við um áratugaskeið. Ríkisstjórn Íslands hefur sýnt þessum vanda algert sinnuleysi. Ábyrgðarleysi er algert og stjórnarliðar keppast nú um að kenna einhverju öðru um en eigin úrræðaleysi og hæst fer sú skoðun að vandinn komi einungis erlendis frá.

Í fyrrasumar gaf Seðlabankinn út spá þar sem greint var frá því að blikur væru á lofti, m.a. versnandi verðbólguhorfum og líkum á gengislækkun íslensku krónunnar. Þá vöruðu margir við versnandi horfum á alþjóðlegum mörkuðum með tilheyrandi afleiðingum. Síðasta ríkisstjórn stóð fyrir mikilli uppbyggingu atvinnulífsins og kaupmáttur launa jókst. Það lá fyrir að ný ríkisstjórn þyrfti að fara sér hægt í sakirnar. Um þetta voru fyrrum stjórnarflokkar sammála auk þess sem önnur vestræn ríki bjuggu sig undir fyrirliggjandi vanda á alþjóðlegum mörkuðum.

Þrátt fyrir þessa staðreynd er í nýjum fjárlögum boðað eyðslufyllerí. Ríkisútgjöld voru aukin um heil 20% og þrátt fyrir sterk varnaðarorð okkar framsóknarmanna, Seðlabankans, ýmissa innlendra og erlendra sérfræðinga og greiningarfyrirtækja, voru þau keyrð í gegn. Nú er kreppa efnahagslífsins blákaldur veruleiki. Það er staðreynd að forsendur síðustu fjárlaga eru brostnar. Tekjutap ríkissjóðs er ekki bara fyrirliggjandi heldur borðleggjandi og augljós fylgifiskur þess mikla frosts sem nú ríkir á erlendum fjármálamörkuðum.

Fyrri spurning mín er því sú til hv. formanns fjárlaganefndar: Ætla stjórnarflokkarnir að horfast í augu við þá staðreynd og endurskoða forsendur fjárlaga?

Seinni spurningin er: Hvenær ætlar Samfylkingin að axla þá ábyrgð sem fylgir því að vera í ríkisstjórn eða má þjóðin eiga von á því að getu- og úrræðaleysinu verði skýlt á bak við fyrri ríkisstjórn Framsóknarflokks (Forseti hringir.) og Sjálfstæðisflokksins út þetta kjörtímabil?