135. löggjafarþing — 100. fundur,  7. maí 2008.

störf þingsins.

[13:55]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl):

Virðulegi forseti. Viðfangsefni stjórnmálamanna í efnahagsmálum eru það alvarleg um þessar mundir að það er fyllsta ástæða til að ræða þau í samræmi við það fremur en efna til deilna á milli einstakra stjórnmálaflokka sem keppast um að koma ábyrgð hvor á annars hendur. Við vitum að staðan er grafalvarleg. Við stöndum frammi fyrir meiri verðbólgu en við höfum gert um 18 ára skeið. Afleiðingarnar af því lenda á herðum íslensku þjóðarinnar, á herðum íslenskra launamanna. Það eru þeir sem borga brúsann af því ástandi sem upp er komið og stjórnmálamenn geta ekki vikið sér undan því að þeir bera ábyrgð á því ástandi að verulegu leyti. Þess vegna skiptir nú fyrst og fremst máli að skýra hvað það er sem menn ætla að gera til að ná tökum á ástandinu og gera það fljótt þannig að skaði almennings verði sem minnstur og byrðunum af ástandinu verði jafnað þannig að þeir sem eru tekjulágir þurfi síður að axla þær en hinir sem eru tekjuháir. Þess vegna eru t.d. hugmyndir ríkisstjórnarinnar um almenna skattalækkun með hækkun persónuafsláttar afleitar vegna þess að þær auka á vandann sem við er að glíma og auka á misrétti byrðanna sem hver og einn þarf að axla. Þær hugmyndir eru þess eðlis að ríkisstjórnin á sem fyrst að endurskoða þær, hætta við almenna lækkun skatta um þessar mundir. Það er ástæða til að huga að kjörum þeirra sem lakast eru settir og bæta þau. En það er ekki ástæða til að auka útgjöld úr ríkissjóði og bæta kjör þeirra sem hafa góðar tekjur og auka á erfiðleikana í efnahagslífinu með því, virðulegi forseti.