135. löggjafarþing — 100. fundur,  7. maí 2008.

störf þingsins.

[13:57]
Hlusta

Bjarni Harðarson (F):

Frú forseti. Þessi umræða er mjög mikilvæg en það er erfitt að draga stjórnarliða að alvöru þess máls að ræða um efnahagsástandið og mikil endemi að heyra enn og aftur hrópað að Samfylkingin hafi, þegar hún settist að stjórnarborði, verið tilneydd til að efna kosningaloforð Framsóknarflokksins. Aldrei varð ég var við þá umræðu hjá hv. formanni fjárlaganefndar í fjárlaganefnd að þeir væru tilneyddir til að leggja fram fé og ráðast í útgjöld vegna einhverra vamma og skamma Framsóknarflokksins. Umræða á þessum nótum er svo lágkúruleg og tilgangslaus að engu tali tekur.

Það alvarlegasta í þessu er að þjóðin hefur beðið eftir efnahagsaðgerðum í allan vetur og loksins hafa þær litið dagsins ljós, það skal viðurkennt. Ríkisstjórnin hefur ákveðið að verja heilum 4 millj. kr., 4 millj. íslenskra króna til að stemma stigu við verðbólgunni. Til hamingju með það. En það vill til að þjóðin, stjórnarandstaðan og reyndar þingheimur allur, gera sér grein fyrir því að þetta er bara brandari, þetta er ekki til þess fallið að leysa neinn efnahagsvanda. Það er heldur ekki fallið til að leysa neinn efnahagsvanda, að hér skuli stjórnarliðar æ ofan í æ koma upp og tala um að ástæðan fyrir efnahagsvandanum nú sé sú að ráðherrar hafi lofað fjárframlögum rétt fyrir kosningar. Vissulega var lofað einhverju lítils háttar. [Hlátur í þingsal.] En minnst af því kom frá ráðherrum Framsóknarflokksins (Gripið fram í.) og í dag höfum við einnig rætt um loforð Samfylkingarinnar sem virðast vera léttvæg á þessum tíma. Aðalatriðið er staðan í efnahagsmálum í dag og að menn hætti karpinu.