135. löggjafarþing — 100. fundur,  7. maí 2008.

færanleg sjúkrastöð í Palestínu.

571. mál
[14:06]
Hlusta

utanríkisráðherra (Ingibjörg Sólrún Gísladóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Þingsályktunartillagan sem hér er vísað til var lögð fram á 131., 132. og 133. löggjafarþingi. Í greinargerð með tillögunni kom fram að þörf fyrir heilbrigðisþjónustu á herteknum svæðum Palestínu aukist mjög þar sem aðgerðir Ísraelsmanna hindri eðlilegan aðgang fjölda Palestínumanna að almennri heilsugæslu og bráðaþjónustu sem ógni heilsu fólks og kosti mannslíf.

Samkvæmt tillögunni ályktar Alþingi að fjármálaráðherra beiti sér fyrir því að fé verði varið til kaupa og reksturs á færanlegri sjúkrastöð. Utanríkismálanefnd fjallaði um þessa tillögu þann 15. mars 2007 og lagði til að málinu yrði vísað til ríkisstjórnarinnar þannig í sjálfu sér var þingsályktunartillagan ekki samþykkt heldur var málinu vísað til ríkisstjórnarinnar.

Í ferð minni til Palestínu í júlí á síðasta ári var fjallað sérstaklega um þessa þingsályktunartillögu á fundi sem ég átti með dr. Mustafa Barghouti sem er kunnur meðal Íslendinga og samtökum hans Union of Palestinian Medical Relief Committees. Samtökin, sem eru frjáls félagasamtök, voru stofnuð árið 1979 og starfa að heilsugæslumálum á hernumdu svæðunum. Þau eru ein stærstu félagasamtökin á því sviði sem þar starfa.

Eftir þennan fund hefur utanríkisráðuneytið, í samstarfi við þessi samtök, unnið að ítarlegri framkvæmd á fjárhagsáætlun um þetta verkefni, þ.e. um kaup og rekstur á færanlegri sjúkrastöð. Samtökin hafa lagt mat á hvar staðsetning hennar verður út frá mannúðarsjónarmiðum og hvar þörfin er mest. Ákveðið hefur verið að þessi stöð verði staðsett í Salfeet-héraði þar sem ástandið er mjög slæmt.

Fyrir liggur sérstakt verkefnisskjal um þetta mál og gert er ráð fyrir því að verkefnið hefjist í haust og fjárveiting er til þess á lið þróunarmála í utanríkisráðuneytinu. Gert var ráð fyrir því að það væri hluti af þessari aðgerðaráætlun varðandi málefni Palestínu sem nú er unnið eftir í utanríkisráðuneytinu.

Samkvæmt þessu verkefnisskjali verður, auk þjónustu sem færanlega sjúkrastöðin veitir, lögð áhersla á forvarnir, þjálfun og þátttöku hins almenna borgara í þessu starfi og uppbyggingu á færni og valdeflingu hjá hinum almenna borgara. Þetta verkefnisskjal liggur sem sagt fyrir og þar sem fyrirspyrjandi hefur áhuga á þessu máli og fylgir því hér eftir — enda var hún einn af flutningsmönnunum, aðrir voru Jón Kristjánsson, Guðrún Ögmundsdóttir, Jón Bjarnason og Magnús Þór Hafsteinsson — ætla ég að afhenda henni þetta verkefnisskjal þannig að hún geti kynnt sér málið og hver staða þess er.