135. löggjafarþing — 100. fundur,  7. maí 2008.

orkusparnaður.

479. mál
[14:12]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Árni Þór Sigurðsson) (Vg):

Frú forseti. Það er kunnara en frá þurfi að segja að orkunotkun á hvern íbúa á Íslandi er með því mesta sem þekkist í heiminum. Við státum okkur raunar oft af því að hér sé hlutfall innlendrar endurnýjanlegrar orku sérlega hátt eða um 70%. En það segir þó alls ekki alla söguna því að hin mikla raforkunotkun hérlendis skýrist fyrst og fremst af því að Íslendingar eiga heimsmet í álframleiðslu á hvern íbúa og á sama tíma er losun koltvísýrings á sama mælikvarða með hvað mesta móti hér á landi og við nálgumst nú óðfluga Bandaríkin í því efni.

Hvað heimilin í landinu varðar, og þá hag alls almennings, eru orkuútgjöld umtalsverð. Gert er ráð fyrir því að meðalheimili eyði árlega í kringum 200–300 þús. kr. í orkukaup og sú fjárhæð er væntanlega á nokkurri uppleið jafnvel hraðri uppleið. Á sama tíma og hallar undan fæti í efnahagsmálum þjóðarinnar, verðbólgan er á fleygiferð og vextir gríðarháir, skipta öll útgjöld heimilanna að sjálfsögðu afar miklu máli og brýnt að reyna eftir megni að ná fram sparnaði í orkunotkun.

Það á auðvitað við um eldsneyti en það á líka við um húshitun og raforkunotkun. Enda þótt þar sé um að ræða umhverfisvæna orku ef svo má segja, að minnsta kosti að verulegu leyti, er engin ástæða til annars en að huga einnig að sparnaði í notkun hennar.

Ég vil líka nefna í þessu sambandi samgöngumálin en notkun jarðefnaeldsneytis er mikil í samgöngum og losun gróðurhúsalofttegunda þar með. Líklega eru samgöngumálin eitt af okkar stærstu málum í umhverfismálunum, ekki síst má kannski segja í þéttbýlinu. Rétt að nefna hér bæði hinn almenna bílaflota landsmanna en einnig fiskiskipa- og farskipaflotann.

Þessi málefni, frú forseti, eru orðin þýðingarmikil í allri almennri stjórnmálaumræðu víða um heim og við þurfum að sjálfsögðu að horfa langt fram á veg á allt sviðið en ekki bara einblína á það sem er næst okkur í tíma og rúmi. Það má t.d. velta því fyrir sér hversu mikið hefur verið gert hér á landi í hönnun og byggingarlist til að draga úr orkunotkun íbúðar- og atvinnuhúsnæðis, það skiptir auðvitað miklu máli hvernig hús eru hönnuð með tilliti til þess.

En ég hef sem sagt leyft mér, virðulegi forseti, í þessu samhengi að leggja fram fyrirspurn til hæstv. iðnaðarráðherra um orkusparnað svohljóðandi:

Hyggst ráðherra beita sér fyrir átaki til orkusparnaðar og betri orkunýtingar? Ef svo er, með hvaða hætti verður það gert?