135. löggjafarþing — 100. fundur,  7. maí 2008.

erfðabreytt matvæli.

585. mál
[14:43]
Hlusta

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Eins og kunnugt er hafa orðið verulegar breytingar á lagaumhverfi varðandi matvæli og matvælaeftirlit eins og hv. þingmönnum er kunnugt um. Þær breytingar tóku gildi um síðustu áramót. Fram að þeim tíma fór umhverfisráðuneytið með þennan málaflokk sem hv. þingmaður er að vísa til. Og eins og hv. þingmaður vakti athygli á var spurningu hennar, sem hún raunar vísar til í fyrirspurn sinni, svarað á sínum tíma.

Því miður er það svo að mjög svipað svar á við enn þann dag í dag. Reglugerðin frá Evrópusambandinu sem hv. þingmaður vitnaði til, nr. 1829 frá 2003, um erfðabreytt matvæli og fóður, og reglugerð Evrópusambandsins, nr. 1830 frá sama ári, um rekjanleika og merkingu erfðabreyttra lífvera og rekjanleika matvæla og fóðurs sem er framleitt úr erfðabreyttum lífverum, tóku gildi hjá Evrópusambandinu 18. apríl 2004. Enn þá er verið að vinna að upptöku þessara gerða í EES-samninginn og það verður ekki fyrr en það hefur verið gert sem þær verða raunverulega teknar upp í íslenskan rétt. Í framhaldi af því er eðlilegt að settar verði reglur hér á landi til samræmis við þær reglur sem þá verða teknar upp í EES-samninginn. Málið er þess vegna enn í vinnslu og ég treysti mér ekki á þessari stundu til að nefna dagsetningar um gildistöku. En ég tek undir það með hv. þingmanni að auðvitað er nauðsynlegt að reyna að hraða þessari vinnu þannig að reglurnar liggi sem skýrastar fyrir. Og ég held að það sé alveg hárrétt hjá hv. þingmanni að við getum lagt til hliðar deilur um erfðabreytt matvæli, og ég geri ráð fyrir að ég og hv. þingmaður séum kannski ekki alveg sammála þar, en það breytir ekki því að ég er út af fyrir sig sammála því að reglur varðandi merkingarnar þurfa að liggja fyrir og eðlilegast að við reynum að hraða því í framhaldi af þeim gerðum sem ég vitnaði til.

Eins og ég nefndi áðan ná reglurnar yfir matvæli og fóður. Þessi málaflokkur var vistaður í fleiri en einu ráðuneyti en fellur núna undir sjávarúvegs- og landbúnaðarráðuneyti. Svonefnd slepping erfðabreyttra tegunda í íslenska náttúru er þó enn þá á forræði umhverfisráðherra. En í raun og veru mun þetta mál sérstaklega snúast um notkun nytjaplantna í landbúnaði sem hafa verið kynbættar með þeim aðferðum sem leiða til þess að þær eru skilgreindar sem erfðabreyttar. Samstarfið á milli þessara ráðuneyta, þ.e. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins og umhverfisráðuneytisins, verður þess vegna að vera mjög náið þegar verið er að vinna að þessum málum og það mun auðvitað verða þannig.

Hv. þingmaður spyr mig jafnframt að því hvað valdi þeim drætti sem sé orðinn á útgáfu fræðslubæklings fyrir almenning um erfðabreytt matvæli sem í fyrrgreindu svari kom fram að ætlunin væri að gefa út. Ég get út af fyrir sig ekki svarað því að öllu leyti. Eftir því sem ég hef upplýsingar um tengist það hins vegar þeim drætti sem hefur orðið á upptöku þessara gerða í EES-samninginn og raunar kom þetta fram líka í svari hæstv. umhverfisráðherra árið 2005.

Ég ítreka það að ég tel mjög mikilvægt að auka fræðslu um erfðatækni og hlut hennar í kynbótum nytjategunda, m.a. til framleiðslu matvæla. Og jafnvel þó að talsvert mikið hafi verið um þessi mál fjallað á hefur það að hluta til verið gert á frekar fræðilegum nótum þó að við leikmenn höfum líka tjáð okkur um þessi mál. Þess vegna er það alveg rétt sem hv. þingmaður nefndi og kemur í rauninni fram í fyrirspurn hennar, og ég held að um það sé enginn ágreiningur og síst af öllu við ráðuneyti sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytis, að stuðla þurfi að þessari fræðslu. Ég hef að minnsta kosti fullan hug á því að fylgja eftir ásetningi fyrirrennara míns um að efla þessa kynningu í tengslum við upptöku reglnanna í íslenskan rétt.