135. löggjafarþing — 100. fundur,  7. maí 2008.

erfðabreytt matvæli.

585. mál
[14:48]
Hlusta

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Mig langar til upprifjunar að lýsa því að á sínum tíma voru merkingar á erfðabreyttum matvælum skoðaðar í umhverfisráðuneytinu. Við töldum þá, eins og ég heyri að hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra segir, að frekar stutt væri í að gengið yrði frá þessu máli, þ.e. að við gætum farið að merkja matvæli þannig að skýrt kæmi fram hve mikið innihald af erfðabreyttum matvælum væri í viðkomandi vöru. En það hefur greinilega dregist varðandi EES-samninginn að koma þessu í gegn og það lengi. Það er svolítið merkilegt að heyra að við gefum hér sömu svörin ár eftir ár.

Ég vil taka undir það sem fram hefur komið. Það er mjög mikilvægt að merkja vörurnar, óháð því hvort maður styður eða er andsnúinn hugmyndafræðinni á bak við erfðabreytt matvæli. Það er alveg ljóst að ef ekki væru erfðabreytt matvæli væru mjög miklar líkur á að mikil hungursneyð væri í heiminum. Það eru því bæði kostir og gallar við þessa vöru.