135. löggjafarþing — 100. fundur,  7. maí 2008.

erfðabreytt matvæli.

585. mál
[14:51]
Hlusta

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég hef engan áhuga á því að þetta mál tefjist lengur en nauðsynlegt er. Almennt talað tel ég mjög mikilvægt fyrir okkur sem framleiðslu- og matvælaþjóð að allar upplýsingar um uppruna og innihald vöru sem verið er að framleiða liggi sem gleggst fyrir. Ég hef verið ákafur talsmaður þess eins og ég veit að hv. þingmanni er ljóst.

Ég held að það séu hagsmunir okkar sem matvælaframleiðenda að allar þessar reglur séu sem skýrastar og þessi fræðsla liggi fyrir. Ég ætla líka að láta liggja á milli hluta spurninguna um erfðabreytt matvæli þó að ég hafi ákveðnar skoðanir á því en það er ekki kjarni þess máls sem við ræðum hér. Við erum að ræða um að upplýsingar þurfi að liggja fyrir um innihaldið í þessum vörum og ég tel að það sé mikilvægt fyrir okkur að svo verði.

Ég mun að sjálfsögðu reyna að hraða þessari vinnu. Þessi mál komu undir mitt ráðuneyti fyrir fáeinum mánuðum og ég skal viðurkenna að þetta hefur kannski ekki verið efst á forgangslista í starfsemi míns ráðuneytis, kannski má virða mér það til verri vegar. Ég get þó ekki tekið undir að svörin séu hin sömu og fyrir sjö eða átta árum því það var í apríl 2004 sem Evrópusambandið gerði þetta að lögum og síðan átti eftir að taka þetta inn í EES-samninginn og ganga frá þessu hér á landi.

En þannig hefur verið litið á að eðlilegast væri að gera það í þessari röð, að við mundum taka þetta inn í EES-samninginn og koma því síðan inn í íslenska löggjöf og íslenskrar reglur og þannig gætum við reynt að koma fram með þessar upplýsingar — ég tek undir með þeim sem hér hafa talað, það er eðlilegt og nauðsynlegt og sjálfsagt að þær séu til staðar.