135. löggjafarþing — 100. fundur,  7. maí 2008.

viðbrögð við áliti mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna.

592. mál
[15:00]
Hlusta

Grétar Mar Jónsson (Fl):

Herra forseti. Ég heyri ekki betur á svari hæstv. sjávarútvegsráðherra en að hann ætli ekki að bjóða Alþingi upp á það að fá að fjalla um málið. Það er auðvitað grafalvarlegt ef Alþingi Íslendinga á ekki að fá að fjalla um þetta mál því að ef svara á áliti mannréttindanefndar gengur það út á það að gera verði breytingar á lögum um stjórn fiskveiða, um kvótakerfið, og þá hlýtur Alþingi að þurfa að fá að koma að málinu. Annars er verið að lítilsvirða Alþingi og alla alþingismenn og það er ekki hægt að sætta sig við slík vinnubrögð. Þingið hlýtur að fá að koma að þessu, það er ekki hægt að sætta sig við að Alþingi komi ekki að málinu og það komi fram hverjar eru tillögur stjórnarflokkanna í þessu máli. Ekki vilja hinir ágætu menn í ríkisstjórninni verða mannréttindaníðingar?