135. löggjafarþing — 100. fundur,  7. maí 2008.

viðbrögð við áliti mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna.

592. mál
[15:02]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Siv Friðleifsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Mér fannst þetta mjög spennandi svar sem hér var gefið. Það var kveðið skýrt upp úr með það að svar kæmi fyrir þinglok og það yrði pólitískt. Ég vil þakka hæstv. landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra sérstaklega fyrir þetta beinskeytta svar og nú bíðum við bara eftir því að það komi. Að vísu hefði ég talið mjög æskilegt að meira samráð væri haft um niðurstöðuna. Ég er hins vegar sammála því að það er mjög ólíklegt að fullkomin sátt hefði náðst um viðbrögð, ég geri mér grein fyrir því, það hafa verið það miklar deilur um kvótakerfið. Framsóknarflokkurinn hefur í meginatriðum stutt kvótakerfið en þó viljað sníða agnúana af. Það eru vissir gallar á kerfinu en jafnframt eru líka kostir í leiðinni og þetta er því ansi flókið. Við teljum mjög mikilvægt að bregðast við álitinu og helst þannig að ekki komi aftur niðurstaða á sama veg. Það þarf að gera þannig breytingar að við teljum að það standist til framtíðar, af því að gera má ráð fyrir að málið verði tekið aftur fyrir mannréttindanefndina af aðilum sem sætta sig ekki við kerfið eins og það væntanlega verður. Því er mjög mikilvægt að vel takist til.

Ég tel afar brýnt að við endurspeglum sem fyrst í stjórnarskránni ákvæðið í 1. gr. laganna um stjórn fiskveiða að nytjastofnar á Íslandsmiðum séu sameign íslensku þjóðarinnar af því að ég skil niðurstöðu mannréttindanefndarinnar þannig að nefndin telji að einhvers konar eignarréttarákvæði sé að myndast á kvótanum sem er algerlega ljóst að Framsóknarflokkurinn hefur aldrei viljað og alltaf haldið til haga að væri ekki.

Ég vona svo sannarlega að ríkisstjórnin beri gæfu til að klára þetta mál þó að ég hafi reyndar orðið fyrir vonbrigðum með svör hæstv. forsætisráðherra um daginn um sama efni þar sem kom fram að ekki ætti að gera breytingar á stjórnarskránni fyrr en með áhlaupi rétt fyrir næstu kosningar.