135. löggjafarþing — 100. fundur,  7. maí 2008.

viðbrögð við áliti mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna.

592. mál
[15:04]
Hlusta

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég tek undir með hv. þm. Siv Friðleifsdóttur að mikilvægt er að bregðast við og eins og ég hef sagt æ ofan í æ í allri þeirri umræðu sem farið hefur fram um þessi mál er mjög mikilvægt að vel takist til með svarið. Þess vegna eru menn að reyna að vanda sig eins vel og hægt er við þetta svar. En gallinn og vandinn sem við stöndum m.a. frammi fyrir er sá að þrátt fyrir allt er þetta álit ekki mjög skýrt. Ef það væri alveg skýrt væru t.d. engar deilur um það hvernig bæri að túlka það. Það getur vel verið að menn hafi uppi mjög eindregin sjónarmið í þeim efnum hvað menn lesi út úr álitinu en það er óvefengjanlegt að ekki eru allir sáttir við það eða sammála um hvað þetta álit, þessi skoðun nefndarinnar í raun og veru felur í sér. Á vissan hátt er vandinn sem við stöndum frammi fyrir núna þegar við erum að reyna að svara þessu, að bregðast við áliti sem er ekki allt of skýrt. Við höfum eins og ég sagði áðan reynt að fara mjög vel yfir þetta og líka að afla gagna um það hvernig beri að svara áliti af þessu tagi, hvernig beri að bregðast við þegar álit af þessu tagi kemur frá mannréttindanefndinni og það er líka hlutur sem þarf að vanda sig við.

Ég er alveg ósammála því sem hv. þm. Grétar Mar Jónsson sagði að í svari mínu hefði falist að Alþingi ætti ekki að fá að fjalla um málið. Má ég þá vekja athygli á því að ég held að frá fyrsta degi eftir að þetta álit kom fram var það rætt á Alþingi. Mjög fljótlega var a.m.k. kallað eftir viðbrögðum mínum í þessum efnum og ég hef ekkert látið á mér standa í því, ég hef látið í ljós sjónarmið mín. Ég man ekki hversu margar utandagskrárumræður hafa farið fram um þetta mál í þinginu. Ég man heldur ekki hvað ég er búinn að fá margar fyrirspurnir undirbúnar og óundirbúnar í þessum efnum en þær eru allmargar. Ég vek athygli á að það hefur legið fyrir þingmál um þessi mál í þinginu. Ég vek líka athygli á að bæði sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd eru hvað eftir annað búnar að sitja yfir þessu máli. Það er því ekki hægt að segja að Alþingi sé hlunnfarið í umræðu um þessi mál. Það er ljóst að við vitum um sjónarmiðin í þessum efnum. Alþingi hefur haft mörg tækifæri til að fara yfir þetta. Og ég hef lýst því yfir að ef hægt væri mundi ég gjarnan vilja að það gæti farið fram umræða um þessi mál fyrir þinglok.