135. löggjafarþing — 100. fundur,  7. maí 2008.

innflutningur á fínkorna tóbaki.

606. mál
[15:10]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Herra forseti. Spurningin sem hv. þingmaður bar fram í lok ræðu sinnar er alls ekki fyrirspurnin sem lögð var fram á þingskjalinu en hún er svohljóðandi:

„Hefur fínkorna tóbak verið gert upptækt við tollskoðun? Ef svo er, hve mikið magn hefur tollgæslan lagt hald á árlega undanfarin fimm ár?“

Í tölfræðiupplýsingum tollgæslunnar á landsvísu er haldlögðum varningi skipt upp í ákveðna flokka þar sem eðlislíkur varningur fer í sama flokk. Hvað varðar tóbak þá hefur tölfræðiupplýsingum tollgæslu verið skipt upp í eftirfarandi þrjá flokka: Í fyrsta flokki eru vindlingar í stykkjum, í öðrum flokki eru vindlar í stykkjum og í þriðja flokki er annað tóbak í grömmum eða kílógrömmum.

Í tölfræðiupplýsingum tollgæslunnar er ekki að finna sérstaka sundurliðun á fínkorna tóbaki en fínkorna neftóbak og munntóbak sem er ólöglegt samkvæmt 5. mgr. 8. gr. laga nr. 6/2002, um tóbaksvarnir, fellur undir síðastnefnda flokkinn. Undir þennan flokk getur þá einnig fallið annað tóbak og jafnframt er þar undir haldlagning á tóbaki sem er löglegt en fer umfram leyfilegt magn.

Árið 2003 voru flutt inn 165,5 kg af öðru tóbaki, 2004 132,5 kg, 2005 liðlega 112 kg, 2006 158,5 kg og 2007 tæplega 180 kg. Samtals hefur því tollgæslan lagt hald á 748,5 kg af öðru tóbaki en vindlum og vindlingum á umræddu tímabili, þ.e. á árunum 2003–2007. Sem áður segir er fínkorna tóbak meðtalið í þessum upplýsingum en upplýsingar um frekari sundurliðun liggja ekki fyrir.