135. löggjafarþing — 100. fundur,  7. maí 2008.

samskipti ríkisstjórnarinnar og Seðlabankans.

584. mál
[15:27]
Hlusta

forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Herra forseti. Það er ástæðulaust að endurtaka það sem ég sagði hérna áðan um þetta mál. Ég tel að fyrirspurnin sé tilefnislaus og ég hef svarað henni efnislega. En að gefnu tilefni vil ég segja að að öðru leyti eru bæði bankinn og ríkisstjórnin að vinna sína vinnu hvað varðar það að styrkja varnir landsins út á við, t.d. með því að efla gjaldeyrisforðann. En þau mál eru þess eðlis að það er ekki hægt að tala mikið um þau úr ræðustól Alþingis. Hitt er annað mál að aðstæður á fjármálamörkuðum hafa verið að batna, okkur í hag og núna er hægt að spara heilmikla peninga með því að hafa frestað lántöku um einn eða tvo mánuði vegna þess að kjörin hafa batnað. Þeir sem tala núna um það að þeir hefðu viljað fyrir svo og svo löngu síðan að það væri farið út á markaðinn og tekið lán ættu að reikna það út hvað væri miklu ódýrara að gera það núna eða á næstunni, miðað við það sem þá var. Það þýðir ekki að koma hérna og tala og tala út í loftið þegar fólk virðist ekki hafa nein tök á því sem það er að tala um.