135. löggjafarþing — 100. fundur,  7. maí 2008.

bætur almannatrygginga.

[15:36]
Hlusta

forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Herra forseti. Það var vissulega stór stund þegar gengið var frá samkomulagi við Landssamband eldri borgara í júlímánuði árið 2006 og við hv. þm. Guðni Ágústsson, þáv. landbúnaðarráðherra, sátum báðir á blaðamannafundi og kynntum það samkomulag. Því miður heyrist mér samt að hv. þingmaður hefði átt að setja sig betur inn í það sem hann var þá að kynna og eins það sem gert var núna í kjölfar síðustu kjarasamninga. Það er alveg greinilegt að hann er ekki með aðferðafræðina í þessu á hreinu. Í báðum tilfellum var stuðst við sömu aðferð sem hefur verið notuð árum saman, að hækka bætur almannatrygginga með sama hætti og almenn laun hækka að meðaltali. Þannig hefur aðferðin verið.

Það sem gerðist sumarið 2006 var að nýttar voru þær aðstæður sem þá höfðu skapast vegna kjarasamninga á almennum vinnumarkaði. Tillaga nefndarinnar um að steypa saman nokkrum bótaflokkum var útfærð þannig að það varð 15 þús. kr. hækkun sem var það sama og samið var um í kjarasamningum. Það átti bara við í þetta eina sinn og hafði ekkert fordæmisgildi gagnvart framtíðinni.

Það er líka rétt að taka það fram, fyrst hv. þingmaður nefnir ævinlega ASÍ til sögunnar hér og svo hagsmunasamtökin sem þarna var samið við, að þau hafa viljað fara aðrar leiðir í gegnum árin. Þau reyndu að fá ráðherra Framsóknarflokksins árum saman á bilinu 1995–2007 til þess að fara aðra leið en þá sem ég var að lýsa, þ.e. að miða jafnan við hækkun lægstu launanna. Á það var ekki fallist, hvorki af heilbrigðisráðherrum Framsóknarflokksins né af ríkisstjórninni á þeim tíma. Það var bara heiðarlegur ágreiningur um þetta atriði við Alþýðusambandið. Hann kemur aftur upp núna eins og hv. þingmaður lýsti.

Sumarið 2006 voru stigin önnur mikilvæg skref í réttindabaráttu eldri borgara í samstarfi við ríkisstjórnina. Þetta var listi upp á 16 atriði sem m.a. vék að búsetumálum, kjaramálum, breytingum á bótum, lagfæringum á skerðingarhlutföllum, hækkun lífeyrisgreiðslna o.s.frv. Þetta var mikilvægt skref sem heldur áfram að koma til framkvæmda allt til ársins 2010 og var talið mundu kosta 15,5 milljarða þegar allt væri komið til framkvæmda, einföldun bótakerfis, lækkun skerðinga bóta vegna tekna maka o.s.frv. Sem betur fer hefur okkur miðað áleiðis á þessari braut. Það sem ég vil leggja sérstaka áherslu á nú í þessu sambandi er að í stefnuyfirlýsingu núverandi ríkisstjórnar er lögð áhersla á að halda áfram á þessari braut með því að styrkja stöðu aldraðra og öryrkja, með því að draga úr tekjutengingum og skerðingum bóta í almannatryggingakerfinu. Strax á síðasta sumri samþykktum við hér á Alþingi ný lög sem kváðu á um að atvinnutekjur ellilífeyrisþega eldri en 70 ára skyldu ekki lengur skerða lífeyrisgreiðslur þeirra. Þetta var fyrsta skrefið af mörgum og við erum enn þá á þessari vegferð og höfum ekkert lokið henni.

Í desember sl. gaf núverandi ríkisstjórn út aðra yfirlýsingu um frekari aðgerðir til að bæta kjör aldraðra og öryrkja, m.a. var skerðing tryggingabóta vegna tekna maka afnumin frá 1. apríl sl. Það mun kosta 1.800 milljónir á heilu ári og er þegar komið til framkvæmda. Við höfum gripið til sérstakra aðferða til að draga úr of- og vangreiðslum tryggingabóta eins og félags- og tryggingamálaráðherra hefur kynnt. Vasapeningar vistmanna á stofnunum hafa verið stórhækkaðir eða um 30% frá 1. apríl sl. Frítekjumark vegna atvinnutekna ellilífeyrisþega á aldrinum 67–70 ára hefur verið hækkað og á Alþingi er til meðferðar frumvarp sem mun tryggja að ellilífeyrisþegar fái að lágmarki jafngildi 25 þús. kr. á mánuði úr lífeyrissjóði frá því um mitt þetta ár í þeirri útfærslu sem frumvarpið býður upp á. Með sama hætti höfum við hækkað frítekjumark öryrkja og margt fleira. Allt var þetta kynnt nákvæmlega hér fyrir jólin og er um að ræða aðgerðir sem bætt hafa og munu bæta kjör lífeyrisþega um 8 milljarða kr.

Það er því algjör misskilningur hjá hv. þingmanni að hér sé um einhver svik að ræða. (Gripið fram í.) Ég hef gert grein fyrir því, hv. þingmaður, að það er ágreiningur við ASÍ um þetta mál. En mætti ég vitna í hv. forseta Íslands sem sagði sem fjármálaráðherra einu sinni úr þessum sama ræðustól hér: Alþýðusambandið er nú engin heilög kirkja. Það er stundum ágreiningur við Alþýðusambandið. Þó að við séum í mjög góðu sambandi (Gripið fram í.) og samstarfi við það höfum við ekki náð sameiginlegri lendingu hvað þetta varðar. Hv. þingmaður veit vel að svona var þetta því að hann sat lengi í ríkisstjórn.

Hins vegar er það leitt ef hv. þingmaður hefur ekki almennilega náð utan um þá hluti sem hann stóð sjálfur að í ríkisstjórn í öll þessi ár. (Gripið fram í.) Ég átta mig vel á þessum hlutum og skil þá vel (Forseti hringir.) en ég óttast hins vegar og mér heyrist að hv. þingmaður geri það ekki.