135. löggjafarþing — 100. fundur,  7. maí 2008.

bætur almannatrygginga.

[15:51]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Umræðan snýst um hækkun á launum sem um var samið í byrjun árs, upp á 18 þús. kr. lágmark á taxta. Þessir samningar voru afskaplega skynsamlegir vegna þess að þeir tóku mið af þeirri erfiðu stöðu sem þjóðarbúið stendur í og það var talið að meiri hluti launþega fengi ekki launahækkun. Það var talið að einungis einn fjórði eða einn þriðji hluti launþega hefði fengið launahækkun út úr þessum samningum.

Þegar þetta er borið saman við hækkun lífeyris til elli- og örorkulífeyrisþega þá verða menn að taka allar greiðslur, því lífeyrisþegar fá víða tekjur. Þeir fá úr lífeyrissjóði, þeir fá úr Tryggingastofnun, eigin tekjur og hugsanlega fjármagnstekjur. Ef við lítum bara á það frá Tryggingastofnun og tökum inn í dæmið það frumvarp sem fyrirhugað er að samþykkja og stjórnin ætlar að samþykkja um 25 þús. kr., þá hækkar lífeyrir hjá þeim sem eru verst settir, hjá ellilífeyrisþegum og þeim sem búa einir, um 22 þús. kr. Þannig að þeir ná þessum 18 þús. kr. fyrir skatt. Þetta er því ekki vandamál.

Öryrkjar hafa fengið uppbót, aldurstengda uppbót á lífeyri sem líka kemur eins og 25 þús. kr. til hækkunar. Sú uppbót var hækkuð mikið hjá öryrkjum. Hverjir eru svo hinir alverst settu lífeyrisþegar í þjóðfélaginu? Það eru þeir sem aldrei borguðu í lífeyrissjóð alla ævi, ef þeir eru á ellilífeyrisaldri fá þeir 22 þús. kr. meira á mánuði.

Það er hugsanlegt að þeir sem eru með um 25 þús. á mánuði úr lífeyrissjóði séu eilítið verr settir. En ég vil benda á það að lífeyrisgreiðslur úr lífeyrissjóðum hækka eins og verðlag. Þær hafa hækkað um 12% núna síðustu tvo mánuðina. Það má ekki gleyma því, það er líka hækkun því það var reiknað inn í þessar 18 þús. kr. vegna þess að taxtarnir voru ekki verðtryggðir.