135. löggjafarþing — 100. fundur,  7. maí 2008.

bætur almannatrygginga.

[15:53]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Herra forseti. Við ræðum hér kjör þeirra sem margir hverjir hafa lægstar ráðstöfunartekjur í landinu. Það er komið nærri ár frá kosningum en fyrir kosningar voru gefin stór loforð. Sérstaklega af Samfylkingunni í þessum efnum að þetta skyldu vera þeir þjóðfélagshópar sem fengju fyrst og strax bót sinna kjara. Það er dapurlegt að þetta ár skuli nú líða án þess að þau loforð séu efnd og munar þar miklu.

En það sem ég ætla að víkja hér að, forseti, er að ellilífeyrisþegar þurfa ekki aðeins að búa við svona skert kjör heldur eiga þeir á hættu að fá allt í einu bréf frá Tryggingastofnun um að þeir verði krafðir endurgreiðslu á lífeyri sem þeir fengu fyrir nokkrum árum síðan. Þeir verða jafnvel að verja stórum hluta af bótum sínum til þess að greiða þessar gömlu skuldir. Þessar kröfur hafa komið ellilífeyrisþegum í opna skjöldu og þeir upplifa sig sem sakamenn í þeim efnum. Sök sér væri ef um væri að ræða einstakt tilvik en svo er ekki, 82% þeirra sem fá greiðslu ellilífeyris fá endurreikning og meginþorri þeirra fær bakkröfur. Menn velta fyrir sér hvað sé að. Þetta virðist ekki batna á milli ára. Nýlega féll dómur í Héraðsdómi Reykjavíkur þar sem felld var úr gildi ákvörðun Tryggingastofnunar um að krefja ellilífeyrisþega um greiðslu á rúmum 600 þús. kr. vegna ofgreiddra bóta fyrir árið 2003 og 2004.

Þarna er um stórmál að ræða gagnvart mörgum ellilífeyrisþegum, ekki aðeins upphæðirnar sem þarna er um að ræða heldur einnig hvernig þessi þjóðfélagshópur upplifir ágang opinberra aðila á sig. Því velti ég fyrir mér hvort ríkisstjórnin muni hugleiða að fara ofan í (Forseti hringir.) þennan dóm sem getur haft mikið fordæmisgildi (Forseti hringir.) gagnvart mörgum ellilífeyrisþegum, herra forseti.