135. löggjafarþing — 100. fundur,  7. maí 2008.

bætur almannatrygginga.

[16:00]
Hlusta

Guðni Ágústsson (F):

Hæstv. forseti. Betra er að veifa röngu tré en öngvu. Það gerði hæstv. forsætisráðherra við þessa umræðu. Hv. þingmenn Samfylkingarinnar, Helgi Hjörvar og Ellert B. Schram, hafa staðfest það í þessari umræðu að ræða hæstv. forsætisráðherra var röng.

Samfylkingin skilur stórt eftir í flórnum og hv. þm. Ellert B. Schram viðurkennir það hér að það séu 9 þús. kr. á hverjum einasta mánuði sem eldri borgarar og öryrkjar hafi verið sviknir um. Hann staðfestir að Samfylkingin hafi svikið eldri borgara og öryrkja í þessu nýja samstarfi. Að vísu hótar hann því að hann ætli að reyna að standa við það. Ég óska honum góðs í því og að hann muni reynast maður til þess. En við Framsóknarflokkinn þarf hann ekki að sakast. Því hér er í rauninni verið að ræða um kjarasamning sem Framsóknarflokkurinn stóð fyrir og stóð að. Þess vegna frábið ég mér allar dylgjur. Ég þakka Helga Hjörvari hv. þingmanni fyrir drengilega ræðu þar sem hann staðfesti í rauninni allt sem ég sagði.

Það er ljóst, hæstv. forseti, að í tillögunum frá 2006 var lagt upp með að hækka þá þrjá flokka tryggingabóta sem mynda lágmarksgrunnlífeyri og setja viðmið við dagvinnutryggingar launafólks í stað lægstu taxta enda gefur það raunsannari mynd eins og ég sagði.

Síðan vil ég segja við hæstv. forsætisráðherra: Staðreyndin er sú að það hefur verið gengið til þess að taka skerðingar í burtu í stórum stíl, þ.e. bæturnar hafa verið hækkaðar til þeirra sem hafa það betra í þessum hópi en af þeim sem hafa það verra eru teknar 10 þús. kr. til þess að ríkissjóður fari hallalaus út úr málinu.

Þetta er því allt saman mikil skömm fyrir ríkisstjórnina. Sjálfstæðisflokkurinn er sjálfum sér líkur en Samfylkingin verður að sýna að (Forseti hringir.) hún standi við stóru orðin. Það var skömm að ræðu hv. þm. Ellerts B. Schrams. En hann viðurkenndi þó, (Forseti hringir.) og er maður að meiri, að þetta voru svik.