135. löggjafarþing — 101. fundur,  8. maí 2008.

frumvarp um sjúkratryggingar, Lýðheilsustöð.

[10:43]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ef við erum að tala um breytingar, frumvörp og annað slíkt þá komast menn ekki hjá því að líta á hvert efni málsins er. Ef við tölum hér um að greiða atkvæði um frumvarp þar sem menn setja einn lagabálk sem samþykktur hefur verið á þinginu í öðrum lögum fram til þessa þá er ekki verið að gera neinar stórvægilegar breytingar. Ef sátt var um þetta í heilbrigðislögunum síðasta vor þegar allir þingmenn á Alþingi greiddu atkvæði með því, hvers vegna í ósköpunum skyldi ekki vera sátt um það núna? Því í ósköpunum skyldi það ekki vera? (Gripið fram í.) Og það sem ég er hreinlega að fara fram á er að menn setjist niður og skoði þetta. Um leið og menn gera það þá geta þeir ekki komist að annarri niðurstöðu en þeirri að þetta sé sjálfsagt og eðlilegt mál og þar af leiðandi sé hægt að ljúka þessu máli hratt og vel. (Gripið fram í: Óboðleg vinnubrögð.)