135. löggjafarþing — 101. fundur,  8. maí 2008.

Urriðafossvirkjun.

[10:44]
Hlusta

Atli Gíslason (Vg):

Herra forseti. Nú hefur það gerst að meiri hluti kosningabærra íbúa Flóahrepps hefur ritað undir áskorun til sveitarstjórnarinnar um að taka Urriðafossvirkjun af aðalskipulagi. Þá hafa níu af tíu eigendum landa við Urriðafossvirkjun austan Þjórsár skrifað undir eindregna andstöðu við þessar virkjanir. Það er því óhjákvæmilegt að eignarnáms er þörf eigi að verða af virkjuninni.

Þessar undirskriftir og yfirlýsingar hafa verið afhentar ráðherra og forstjóra Landsvirkjunar. Í Fréttablaðinu á þriðjudaginn er haft eftir forstjóranum, með leyfi herra forseta:

„Ríkið á 93% af vatnsréttindum vegna Urriðafossvirkjunar og Landsvirkjun hefur umboð ríkisins til að fjalla um þau mál.“

Forstjórinn gefur líka skýrt í ljós að hann muni beita öllum heimildum sem hann hefur í þessu máli og þar með talið eignarnámi. Það er ljóst samkvæmt skýrri niðurstöðu Ríkisendurskoðunar frá í desember að atbeina Alþingis er þörf ef á að afsala þessum vatnsréttindum þar með talið til að veita umboð.

Herra forseti. Ég spyr því hæstv. umhverfisráðherra: Hefur ríkisstjórnin veitt Landsvirkjun slíkt umboð og liggur það fyrir skjalfest? Ef svo er, í hverju felst efni umboðsins, hvort sem það er skjalfest eða munnlegt?

Í öðru lagi: Liggur fyrir samþykki þingflokka ríkisstjórnarinnar fyrir þessu?

Í þriðja lagi: Af hverju hefur ekki verið leitað atbeina Alþingis um þessa ráðstöfun vatnsréttinda þrátt fyrir skýra niðurstöðu Ríkisendurskoðunar?

Loks spyr ég hæstv. umhverfisráðherra: Er hún samþykk því að Landsvirkjun krefjist eignarnáms þrátt fyrir þessa skýru andstöðu eigenda þessara landa bæði austan og vestan Þjórsár? (Forseti hringir.) Og að ljá máls á því að Landsvirkjun fari fram með eignarnám í málinu, hver er afstaða hæstv. umhverfisráðherra?