135. löggjafarþing — 101. fundur,  8. maí 2008.

framlag Íslands til umhverfismála.

[10:50]
Hlusta

Ólöf Nordal (S):

Hæstv. forseti. Mikið hefur verið fjallað um Ísland í erlendum fjölmiðlum undanfarnar vikur og ég hygg að það hafi ekki alltaf verið á þá lund sem okkur hefur best líkað. En þannig er það nú með hlutina eins og árferðið hefur verið.

En svo brá við um daginn að áhugaverð umræða var um Ísland í tímaritinu Newsweek sem mér finnst ástæða til þess að ræða við hæstv. forsætisráðherra, herra forseti. Mig langar til þess að varpa spurningum fram til hans.

Þar kom fram að Ísland væri, að mati tímaritsins, grænasta land í heimi og forsætisráðherra þjóðarinnar grænasti forsætisráðherrann. Þetta finnst Vinstri grænum afskaplega skemmtilegt en þetta sýnir á hvaða götum við erum hér á Íslandi í umræðum um umhverfismál þegar horft er á stöðuna í heiminum.

Mig langar að spyrja hæstv. forsætisráðherra að því, herra forseti, hvað honum þyki um þá umræðu sem hefur verið í heiminum um umhverfismál og sérstaklega stöðu Íslands, og þá framlag Íslands til umhverfismála í heiminum sem mér þykir ástæða til að ræða meira hér í sölum Alþingis. Ég vil einnig spyrja hvort hann telji að þessi umræða muni hafa einhver áhrif á þær umræður sem hér hafa verið og hvort við þurfum kannski í sumum tilvikum að setja hlutina á svolítið annað plan í því.

Um leið og ég þakka hv. þm. Atla Gíslasyni fyrir þá umræðu sem varð hér áðan, um Þjórsá og þær virkjanir sem þar eru, held ég líka að við þurfum að ræða stöðu Íslands í umhverfismálum í töluvert stærra samhengi. Ég kalla eftir því við virðulegan þingheim. Ég (Forseti hringir.) hef áhuga á að heyra hvaða skoðanir hæstv. forsætisráðherra hefur á því. (ÖJ: Ljótt að gera grín að ríkisstjórninni.)